Fyrsta þota Íslendinga verður rifin

Gullfaxi
Gullfaxi Myndasafn MBl.

Hafist verður handa við að rífa Gullfaxa, fyrstu þotu Íslendinga, í varahluti í Rosswell í Nýju-Mexíkó í Bandaríkjunum í næstu viku, en þar er þekktur flugvélakirkjugarður fyrir farþegaflugvélar og herflugvélar Bandaríkjahers. Áhugamenn um flugsögu Íslendinga á vegum flugsafnsins á Akureyri hafa reynt að fá vélina til varðveislu hingað til lands, en það hefur ekki tekist, þar sem krafist er um 80 milljóna króna fyrir vélina, auk þess sem mikill kostnaður liggur fyrirsjáanlega í því að koma vélinni í upprunalegt horf og geyma hana hér á landi.

Gullfaxi markaði tímamót og upphaf þotualdar á Íslandi er hún lenti hér  á Reykjavíkurflugvelli 22. júní 1967. Fjölmenni tók á móti vélinni sem var fyrsta þota Íslendinga. Flugfélag Íslands keypti vélina nýja frá Boeing-verksmiðjunum, en hún var af gerðinni Boeing 727-100 og tók rúmlega eitt hundrað farþega. Vélin komst síðan í eigu Flugleiða við sameiningu Flugfélags Íslands og Loftleiða og var seld úr landi 27. janúar 1984.

Eftir það komst hún í eigu bandaríska fyrirtækisins UPS (United Parcel Service) sem breytti henni og hefur notað til fraktflugs allt fram á síðasta haust. Er nú búið að fljúga vélinni um 50 þúsund flugtíma og hún hefur lent 32 þúsund sinnum á þessum rúmu fjörutíu árum.

Hafþór Hafsteinsson, stjórnarformaður Avion Aircraft Trading, sem er einn styrktaraðila flugsafnsins á Akureyri, hefur ítrekað reynt að fá vélina hingað til lands til varðveislu. Hann setti sig upphaflega í samband við UPS fyrir um ári og þá var vélin föl fyrir 1,2 milljónir Bandaríkjadala eða um 80 milljónir króna. UPS seldi síðan vélina ásamt öðrum vélum sömu tegundar til aðila í Tulsa í Oklahoma, sem sér um að rífa gamlar flugvélar í varahluti. Vélin var þá einnig föl, en fyrir sama verð og áður.

Þess má geta að Sólfaxi sem er sömu gerðar og Gullfaxi og kom hingað til lands 1971 verður einnig rifinn í Rosswell.

Nánar er fjallað um Gullfaxa í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert