Gagnrýnir umhverfissamtök fyrir rangfærslur

Einar Kristinn Guðfinnsson
Einar Kristinn Guðfinnsson

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gagnrýndi umhverfissamtök fyrir óþolandi rangfærslur er hann hélt erindi um stöðu helstu hvítfiskstofna á alþjóðlegri sjávarútvegsráðstefnu í Lilleström í Noregi í dag.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. 

Hann sagði m.a.; „Þekkt samtök hafa haldið fram hreinum rangfærslum sem ekki hefur reynst auðvelt að leiðrétta“ og benti á að samtök eins og World Wildlife Fund haldi því fram að þorskur sé í útrýmingarhættu.  Ráðherra  telur það algjörlega óþolandi fyrir ábyrga fiskveiðiþjóð að sitja undir slíkum rangfærslum sem skaða orðspor og getur valdið hnökrum á markaðnum. 

Ráðherra bætti því við að Íslendingar væru reiðubúnir að taka erfiðar ákvarðanir sem valda tímabundnum efnahagslegum erfiðleikum ef það megi verða til þess að byggja upp fiskistofnana.  „Sem ábyrg nýtingarþjóð förum við bara fram á eitt, - það er að vera dæmd af verkum okkar og ákvörðunum.  Íslendingar njóta sem betur fer álits fyrir að vinna að ábyrgð í sjávarútvegsmálum og það orðspor viljum við veita,“ bætti ráðherra við. 

Á sjötta hundrað sérfræðinga í sjávarútvegi frá 25 löndum sóttu ráðstefnuna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert