Skrílslæti, ekki mótmæli

Mótmælin í Lhasa, höfuðborg Tíbets, fyrr í mánuðinum voru óeirðir, ekki mótmæli. Óeirðirnar, skrílslæti óeirðaseggja, voru skipulagðar af aðskilnaðarsinnum á bandi Dalai Lama, hins útlæga andlega leiðtoga Tíbets. Þar var á ferð „Dalai-klíkan", hópur manna sem hyggst raska hinni félagslegu einingu Tíbeta. Þrátt fyrir að lífi þeirra hafi verið ógnað hafi öryggissveitir ekki beitt banvænum vopnum, heldur sýnt mikinn aga andspænis óeirðaseggjum.

Þetta er öðrum þræði inntakið í fréttaskýringu alþjóðlegrar útgáfu kínverska ríkissjónvarpsins, CCTV, sem kínverska sendiráðið sendi blaðamanni Morgunblaðsins í vikunni.

Fréttaskýringin, sem er rösklega tuttugu mínútna löng, hefst með umfjöllun um hvernig mótmælin, sem náðu hámarki föstudaginn 14. mars, hafi verið alvarlegasta atlagan gegn öryggi borgarinnar í áratugi og íbúarnir séu enn að jafna sig eftir áfallið. Sýndar eru myndir af meintum skemmdarverkum óeirðaseggja, sem sagðir eru hafa  lagt eld að verslunum, ásamt myndbrotum af tíbeskum munkum sem kasta grjóti í lögreglu. Fréttaþulur segir mótmælin hafa undið upp á sig eftir því sem fleiri söfnuðust saman við Ramoche-musterið í borginni. Mynd er sýnd af ungum manni með hníf á þaki lögreglubíls áður en klippt er á myndskeið af hópi manna sem veltir lögreglubíl skammt frá.

Mikil áhersla er lögð á árásir á hina kínversku íbúa Lhasa og er staldrað við myndir af Kínverja sem verst hópi manna sem kasta í hann grjóti. Því næst er skipt yfir á sjúkrahús þar sem eitt fórnarlambanna, maður sem missti annað augað og eyrað, liggur særður.

Fullyrt er að „skríllinn" hafi eyðilagt verslanir, valdið skemmdum á sjúkrahúsum og á innviðum borgarinnar. Bankar hafi verið eyðilagðir og eldur borinn að stórum skóla. Þrettán saklausir borgarar hafi legið í valnum eftir barsmíðar og íkveikjuárásir óeirðaseggja. 56 bílar hafi brunnið og tugir öryggis- og lögreglumanna særst, þar af tíu mjög alvarlega. Alls hafi 580 mönnum verið bjargað, þar með talið nemendum, kennurum og ferðamönnum. Sagt er að öryggisverðir hafi sýnt mikinn aga og ekki beitt banvænum vopnum þótt lífi þeirra væri ógnað. 200 verslanir og heimili hafi verið lögð í rúst, en enginn útlendingur á meðal fórnarlamba. Næg sönnunargögn séu fyrir hendi til að sýna fram á að „Dalai-klíkan" hafi skipulagt óeirðirnar.

Fimm stúlkur brunnu inni

Daginn eftir, laugardaginn 15. mars, sjást mannlausar götur og hvers kyns eyðilegging hvert sem litið er, rusl, brennandi vespur og farartæki á víð og dreif.

Rætt er við Baema Chilain, aðstoðarformann kínversku kommúnistastjórnarinnar í Tíbet, sem segir „Dalai-klíkuna" hafa beitt alls kyns brögðum til að æsa upp í mótmælendum. Þetta sé dæmi um að klíkan grípi hvert tækifæri til að raska félagslegri einingu Tíbeta.

„Ég er fullur reiði!" hrópar ungur Kínverji.

„Hjarta mitt er fullt af sorg. Lítill hópur aðskilnaðarsinna hefur farið með miklu ofbeldi á hendur Lhasa... Börnin okkar geta ekki farið skóla," segir miðaldra kínversk kona.

„Það er nauðsynlegt að refsa hinum seku. Það er í þágu fólksins og þjóðlegrar einingar," segir eldri kínversk kona.

Því næst er rætt við kaupmanninn Peng Xiaobo sem lýsir því hvernig kveikt var í verslun hans. Frændi hans hafi stokkið niður af annarri hæðinni og sagt: „Ekki hafa áhyggjur af peningunum. Lífið er dýrmætara."

Fjölskylda Xiaobo þurfti að stökkva niður af annarri hæð, kona hans meiddist í baki.

Xiaobo heldur áfram, nú með tárin í augunum. „Ég átti yngri systur...Hún þorði ekki að stökkva úr svo mikilli hæð. Hún leitaði annarrar undankomuleiðir og þá hrundi stiginn undan henni. Hún féll niður á fyrstu hæðina og beið bana í eldhafinu."

Tárin streyma niður vanga Xiaobo og mynd er sýnd af hinni átján ára gömlu Chen Jia. Síðan kemur fram að hún og fimm aðrar stúlkur hafi verið lokaðar inni í fataverslun. Chen hafi sent SMS til föður síns: „Pabbi, óeirðaseggirnir eru mjög grimmir. Við felum okkur í versluninni og þorum ekki að fara. Hafðu ekki áhyggjur af mér. Segðu mömmu og systur minni að fara ekki út."

Því næst segir þulurinn að nokkrum mínútum síðar hafi verið kveikt í versluninni. Fimm stúlkur hafi brunnið inni. Faðir Chen er sýndur niðurbrotinn, áður en talað er við stúlkuna sem komst lífs af.

Annað dæmi er tekið af fórnarlömbunum þegar rætt er við kaupmanninn Wu Guanglin, sem segir óeirðaseggi hafa ráðist á sjúkrabíl sem kom til að hlúa að særðum syni hans. Læknirinn Cering Lobsa hafi bjargað lífi sonarins. Því næst er skipt yfir á sjúkrahúsið, sjúkrahús fólksins í Lhasa, þar sem Cering liggur særður.

Viðurkenna mistök sín

Rætt er við Dorje Cering, hátt settan embættismenn í stjórn kommúnista í Tíbeta, sem segir unnið að því af afla íbúunum nauðsynja.

Því næst eru sýndar myndir af hnípnum óeirðaseggjum þar sem þeir standa í röð, líklega á lögreglustöð.

Fréttamaðurinn Xu Zhaoqun sýnir hinn 43 ára gamla steinsmið Basang, sem skýrir fyrir áhorfendum, dapur og fullur eftirsjár, að hann hafi brotið lögin.

Spurður um hvaða áhrif hann haldi að þetta muni hafa á fjölskyldu hans segir hann: „Ég mun ekki gera þetta aftur, ég mun einnig segja öðrum að gera ekki svona slæma hluti."

Tekið er dæmi af öðrum óeirðasegg, tæplega tvítugum pilti að nafni Bianbaciren, sem segir ömmu sína hafa orðið reiða. Hann sé leiður yfir því sem hann gerði og að hafa valdið öðrum skaða.

Rætt er við lögregluvarðstjórann Yixiduojie sem gerir grein fyrir ástandinu eftir mótmælin, áður en fréttamaðurinn Xu bætir því við að ástandið fari batnandi, enginn hafi stöðvað hann og krafið um skilríki á leiðinni að sjónvarpinu í Tíbet.

Að lokum ítrekar fréttakonan sem hóf þáttinn að óeirðirnar hafi verið skipulagðar af „Dalai-klíkunni". Fullyrt er að ýmsar árásir, ekki aðeins í Lhasa, heldur víðar um Kína, svo sem á lögreglubifreiðar, megi rekja til „Dalai-klíkunnar", sem vilji raska Ólympíuleikunum. Fréttakonan bætir því svo við að utanríkisráðuneytið hafi enn einu sinni sakað Dalai-klíkuna um að hafa skipulagt óeirðirirnar í Lhasa. Fréttaskýringin endar með því að Qin Gang, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, skorar á alþjóðasamfélagið að styðja ekki aðskilnaðarsinna í Tíbet.

Höfðað til tilfinninga

Um myndskeiðið má almennt segja að þar er reynt að höfða til tilfinninga áhorfenda. Sérstök áhersla er lögð á tilfinningar og harm kínverskra fórnarlamba óeirðanna og hvernig þær hafi verið í óþökk meirihluta íbúanna. Sérstaka athygli vekur að orðið „Dalai-klíkan" er margítrekað, en ekki fylgir sögunni hvers vegna erlendir miðlar fengu ekki að flytja fregnir frá svæðinu, úr því atburðarásin var á þann veg er lýst var í myndskeiðinu, sem kínverska sendiráðið sendi Morgunblaðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert