Tímabundið átak í verðlagseftirliti

Ákveðið hefur verið að fylgjast sérstaklega náið með verðlagsþróun á næstunni og verður gert tímabundið átak í verðlagseftirliti af þeim sökum. Þetta var meðal annars niðurstaðan af fundi viðskiptaráðherra, Björgvins G. Sigurðssonar, með Alþýðusambandinu, Neytendastofu og Neytendasamtökunum í gær.

Björgvin sagði að marmiðið með fundinum hefði verið að efna til samstöðu stjórnvalda, aðila vinnumarkaðar og frjálsra félagasamtaka til að sporna eins og kostur væri gegn boðuðum verðlagshækkunum. Í framhaldinu myndi hann einnig funda með stórkaupmönnum og Samtökum verslunar og þjónustu á föstudaginn kemur og síðan aftur með þessum hóp eftir helgina. Hann myndi síðan skila minnisblaði til ríkistjórnarinnar um stöðuna í þessum efnum.

„Við ætlum strax að stórefla verðlagseftirlit og gerð verðkannana bæði á markaði með matvæli, fatnað, rafmagnstæki og fleira til að fylgjast ýtarlega með verðlagsbreytingum og veita strangt aðhald að því að það sé verið að hækka umfram tilefni, án þess að við séum að ætla nokkrum það. Hins vegar er það sjálfsagður réttur neytenda að við veitum alla þá viðspyrnu sem hægt er að veita gegn verðhækkunum sem vonandi eru tímabundnar vegna veikingar krónu og stöðu á erlendum fjármála- og hrávörumörkuðum,“ sagði Björgvin.

Hann sagði að það væri ástæða til þess að brýna alla til samstöðu til að standa vörð um verðlag og andæfa gegn þessari verðhækkanahrinu eins og nokkur sé kostur, svipað og gert hafi verið árið 2001 þegar samstarf stjórnvalda, verkalýðshreyfingar og annarra hafi skilað miklum árangri hvað það snerti að fá menn til að standa saman til að halda aftur af verðbólguþróuninni.

IKEA til fyrirmyndar

„Ég fagna sérstaklega yfirlýsingu frá IKEA sem lýsti því yfir að þeir ætli að ekki að breyta verðlagi næsta hálfa árið og höndla þeir þó einungis með innfluttar vörur. Mér finnst það til fyrirmyndar,“ sagði Björgvin einnig.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert