1.400 milljónum úthlutað til sveitarfélaga

Kristján Möller
Kristján Möller

Kristján Möller, samgönguráðherra, segir að fyrir liggi að setja reglur varðandi úthlutun 1.400 milljón króna aukaframlags Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, en því framlagi er ætlað að jafna aðstöðumun sveitarfélaga sem talin eru í mestri þörf fyrir sérstakt viðbótarframlag vegna þróunar í rekstrarumhverfi þeirra og erfiðra ytri aðstæðna. Þetta kom fram í ræðu hans á landsfundi Samtaka íslenskra sveitarfélaga í dag.

„Vinna er nú hafin við að ákveða hvernig að þessu verður staðið í ár og á þessum tímapunkti get ég ekkert um þær reglur sagt sem úthlutun framlaganna mun byggja á. Náið samráð verður haft við Samband íslenskra sveitarfélaga um úthlutunarreglurnar. Ég vil þó segja það, að veigamikil rök verða að vera til staðar ef breyta á þessum reglum í grundvallaratriðum. Hins vegar verður áhersla lögð á að hraða setningu reglnanna og greiða framlögin að einhverju leyti fyrr á árinu en var í fyrra," sagði Kristján.

Kristján gerði jarðgangnagerð að umfjöllunarefni í ræðu sinni og jákvæð áhrif Hvalfjarðargangna á atvinnu- og búsetuþróun á Vesturlandi, þar hefur átt sér stað hljóðlát bylting hin síðari ár, að sögn Kristján.

„Héðinsfjarðargöng voru forsenda fyrir sameiningu sveitarfélaga á utanverðum Tröllaskaga og skapa auk þess fjölmörg tækifæri fyrir aukið samstarf sveitarfélaga á svæðinu, uppbyggingu ferðaþjónustu og svo framvegis. Göng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar voru sömuleiðis ein lykilforsenda fyrir sameiningu sveitarfélaganna þar og hafa átt sinn þátt í að mynda eitt atvinnusvæði."

Kristján segir  flugsamgöngur afar mikilvægar og að enginn neiti því að Reykjavíkurflugvöllur skiptir sköpum hvað varðar tengingu annarra landshluta við höfuðborgina.

„ Það er því brýnt að eyða allri óvissu um framtíð flugvallarins þannig að þessi mikilvæga samgönguleið til og frá borginni geti bæði viðhaldist og þróast til lengri tíma.

Góðar samgöngur á sjó gegna einnig þýðingarmiklu hlutverki í að tengja byggðir og það er sérstakt ánægjuefni að nú hafa Grímseyingar loksins fengið góðan ferjukost. Ég hef einnig lagt áherslu á að vinna náið með Vestmannaeyingum í því að tryggja öruggar, greiðar og reglulegar siglingar milli lands og eyja, og áform um höfn á Bakkafjöru munu bæði tryggja þessi markmið sem og skapa ný tækifæri til samstarfs og samvinnu sveitarfélaga á Suðurlandi."


Í undirbúningi er í samvinnu samgöngu- og utanríkisráðuneytis að koma ljósleiðaraþráðum NATO í borgaraleg not. „Þessi þræðir liggja með ljósleiðara Símans kringum landið og til Vestfjarða. Stefnt er að útboði á afnotum þeirra á vormánuðum og  er markmiðið er stuðla að aukinni samkeppni í gagnaflutningum á innanlandsmarkaði og um leið að auka aðgengi almennings og fyrirtækja að háhraðatengingum, einkum út á landi," sagði Kristján á fundinum í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert