Óku flautandi og blikkandi á brott

Flutninga- og vörubílstjórar óku flautandi og blikkandi á brott eftir málefnafund þriggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins í Grundarfirði í gær. Á fundinum létu bílstjórarnir í ljósi óánægju sína með kröfur sem gerðar eru um að þeir fari reglulega á endurmenntunarnámskeið sem þeir segja að séu tímafrek, gagnslaus og dýr.

Fundinn héldu þingmennirnir Sturla Böðvarsson, Einar K. Guðfinnsson og Herdís Þórðardóttir.

Hafþór Benediktsson, flutningabílsjóri á Stykkishólmi, sagðist hafa rætt um þungatakmarkanir sem sífellt væru settar við akstri þar sem vegir bæru ekki þunga flutningabílanna, og þörf fyrir breytingu á því.

Einnig hefði hann fundið að því að meiraprófsbílstjórar væru skikkaðir á endurmenntunarnámskeið á fimm ára fresti, en námskeiðið tæki heila viku og kosti auk tapaðra vinnustunda sjötíu þúsund krónur.

Sturla hefði svarað því til, að þessi námskeið væru nauðsynleg, ekki síst vegna þess hve nýjustu flutningabílarnir væru orðnir tæknilega fullkomnir.

Hafþór sagði aftur á móti að þeir bílar sem notaðir væru til kennslu væru svo vanbúnir að ekki væri hægt að kenna neitt nýtt á þeim.

Ennfremur sagði Hafþór að bílstjórar hefðu fundið að því að þeim væri gert skylt að sækja svokölluð ADR námskeið til að fá réttindi til að aka olíubílum og/eða flytja olíustykkjavöru, en tilfellið væri að þeir aðilar sem ættu að fylgja eftir reglum þar um teldu þær óframfylgjanlegar.

Því væri þetta námskeið í raun ekki annað en tíma- og peningasóun fyrir bílstjóra.

Þá sagði Hafþór að bílstjórarnir hefðu afhent Herdísi skjal 4x4 klúbbsins með kröfum um lækkun á álögum, og beðið hana um að leggja það fram á þingflokksfundi eftir helgina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert