Nýjungar hjá Iceland Express

Iceland Express býður upp á nýjungar í vetur.
Iceland Express býður upp á nýjungar í vetur. mbl.is

Iceland Express hefur kynnt vetraráætlun fyrir veturinn 2008-2009 en boðið er upp á ýmsar nýjungar hjá flugfélaginu.   Iceland Express mun fjölga ferðum til London næsta vetur og fljúga í fyrsta sinn til tveggja flugvalla í borginni, Stansted og Gatwick. Jafnframt verður Varsjá í Póllandi nýr vetraráfangastaður félagsins, að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá flugfélaginu.

Í tilkynningunni segir að Iceland Express hafi flogið ellefu sinnum í viku til London í vetur, en mun fjölga ferðum í tólf næsta vetur.  Flugið milli Keflavíkur og Stansted verður morgunflug sjö sinnum í viku en Gatwick-flugið verður fimm kvöld í viku. Þannig mun Iceland Express koma sérstaklega til móts við þá fjölmörgu viðskiptaferðamenn sem fljúga á þessari leið og geta með þessu móti flogið út að morgni og komið aftur heim að kvöldi alla virka daga.

Þá kemur fram að Varsjá bætist við sem vetraráfangastaður en Iceland Express flýgur í fyrsta sinn í beinu áætlunarflugi milli Íslands og Póllands í sumar.   

„Viðskiptaferðalangar þurfa eins og aðrir að halda kostnaði í lágmarki og því leita þeir í auknum mæli til okkar. Því fjölgum við ferðum til London og bjóðum farþegum að velja bæði kvöld- og morgunflug flesta virka daga auk þess að gefa fólki kost á að velja milli Stansted og Gatwick. Eins erum við afar ánægð með það hvernig Varsjárflugið fer af stað. Enn einu sinni hefur Iceland Express sýnt að Íslendingar vilja nýjungar og fjölbreytni í millilandaflugi,“ segir Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert