Nýr ritstjóri hlakkar til

Ólafur Þ. Stephensen, sem ráðinn hefur verið næsti ritstjóri Morgunblaðsins og aðalritstjóri Árvakurs, segir að markmið sitt sé að styrkja alla miðla Árvakurs. Breytingar muni óhjákvæmilega eiga sér stað, en þær verði teknar í skrefum á næstu mánuðum.

Stefnan er, að hans sögn, að skerpa á sérstöðu Morgunblaðsins, sem virtasta dagblaðs á Íslandi og langöflugasta áskriftarblaðsins. Ennfremur er ráðgert að efla samstarf þess og 24 stunda við mbl.is. Ólafur segist hlakka til, starfið sé honum áskorun.

Styrmir Gunnarsson, sem hefur verið ritstjóri Morgunblaðsins frá árinu 1972, lætur formlega af störfum 2. júní, en á þeim sama degi árið 1965 hóf hann störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu. Sagði Styrmir ástæðuna fyrir þessari tilteknu dagsetningu vera „sú sérviska“ að hann vildi hætta störfum á Morgunblaðinu sama mánaðardag og hann hafi byrjað þar. 

Styrmir sagði ennfremur á fundi með starfsmönnum Árvakurs í dag, að hann væri einkar ánægður með að eftirmaður sinn hafi verið valinn úr hópi starfsmanna Árvakurs, „vegna þess að ef það hefði ekki verið gert hefði ég litið á það sem áfellisdóm yfir mínum eigin störfum hér á undanförnum árum og áratugum.“

Hann sagði á starfsmannafundi í dag, þar sem breytingarnar voru tilkynntar, að um merkileg tímamót væri að ræða í sögu blaðsins því jafn skýr ritstjóraskipti hefðu ekki farið fram á miðlinum í rúm áttatíu ár. Styrmir kvaðst afar ánægður með eftirmann sinn og sagði að hann væri öllum hnútum kunnugur innan fyrirtækisins.

Ólafur Þ. Stephensen hefur verið ritstjóri 24 stunda um nokkurt skeið, en við starfi hans tekur Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, fréttastjóri blaðsins. Starfið leggst vel í hana og kveðst hún stefna að því að styrkja blaðið enn frekar í sessi á markaðnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert