Lögregla rekur slóð bloggara

mbl.is/ÞÖK

Lögregla, sem rannsakar bloggfærslur tveggja ungmenna, hefur rakið IP númer tveggja tölva sem bloggfærslurnar komu frá. Er önnur þeirra staðsett á höfuðborgarsvæðinu en hin utan þess. Málið er í rannsókn en lögregla gerir ráð fyrir að ná tali af þeim sem notað hafa tölvurnar innan tíðar. 

Að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirlögregluþjóns, er annars vegar um að ræða bloggfærslu stúlku, sem virðist vera á unglingsaldri þar sem hún segir frá kynferðislegu ofbeldi fósturföður síns. Sú bloggfærsla hefur verið rakin til bæjarfélags úti á landi og hefur málið verið falið lögreglu og barnaverndaryfirvöldum þar.

Hin færslan virðist vera skrifuð af unglingspilti en þar er um að ræða hugrenningar um að ráða skólafélaga af dögum og sprengja síðan Alþingishúsið í loft upp. Er sú færsla rakin til höfuðborgarsvæðisins.

Friðrik Smári segir vel hugsanlegt að um grín og tilbúning sé að ræða en að bæði séu málin þess eðlis að lögregla geti ekki annað en tekið þau alvarlega og kannað málin enda sé augljóslega eitthvað að hjá ungmennum sem skrifi slíkt hvort sem það sem haldið er fram í bloggfærslunum eigi við rök að styðjast eða ekki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert