Fjarhitun og Vélfang fyrirtæki ársins

Fulltrúar fyrirtækja og stofnana ársins.
Fulltrúar fyrirtækja og stofnana ársins. mbl.is/G. Rúnar

Fjarhitun hf. og Vélfang ehf. voru valin fyrirtæki ársins í vinnumarkaðskönnun VR og SFR – stéttarfélags. Embætti ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra voru valdar stofnanir ársins 2008 en niðurstöðurnar voru kynntar nú síðdegis. Fyrirtækin eru metin út frá  líðan fólks í vinnu, ánægju á vinnustað, trúverðugleika stjórnenda, starfsanda o.fl.

Fjarhitun var valið Fyrirtæki ársins í hópi stærri fyrirtækja á almennum vinnumarkaði þar sem vinna 50 starfsmenn eða fleiri og Vélfang í hópi smærri fyrirtækja. Tvö fyrirtæki voru jöfn í öðru sæti í hópi stærri fyrirtækja, Línuhönnun og Logos. Groco var í öðru sæti í hópi minni fyrirtækja og Miracle í því þriðja. Þrek (World Class) og EC hugbúnaður bættu sig mest á milli ára og eru því hástökkvarar í hópi stærri og minni fyrirtækja.

Embætti ríkisskattstjóra var valið  stofnun ársins 2008 í hópi stærri stofnana, þar sem starfsmenn eru 50 eða fleiri, og skattrannsóknarstjóri ríkisins í hópi minni stofnana. Þetta er þriðja árið sem skattrannsóknarstjóri lendir í fyrsta sæti.

Í öðru sæti í hópi stærri stofnana er Umferðarstofa og í því þriðja Sjálfbjargarheimilið. Í hópi minni stofnana var sýslumaðurinn í Vík í öðru sæti og Skattstofa Austurlands í því þriðja. Sýslumaður Snæfellinga bætti sig mest á milli ára og er því hástökkvari ársins.

Um 30 þúsund starfsmenn á almennum og opinberum vinnumarkaði fengu spurningaeyðublað. Svarhlutfall var 45% samtals hjá báðum stéttarfélögum eða alls tæplega fimmtán þúsund manns. Könnunin var gerð í febrúar og mars á þessu ári. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert