100 milljónir í bætur

Hlíðarendi
Hlíðarendi mbl.is/Ásdís

Valsmenn hf. fengu í síðustu viku greiddar 100 milljónir króna í tafabætur frá Reykjavíkurborg þar sem borgin hefur enn ekki gefið út lóðaleigusamninga fyrir landið. Félagið á byggingarlandið við Hlíðarenda sem ekki fór undir íþróttamannvirki Vals.

Kristbjörg Stephensen borgarlögmaður segir greiðslurnar vera í samræmi við samning sem gerður var við Valsmenn hf. í apríl 2006. „Það er ákvæði í samningnum um það að ef lóðaleigusamningar eru ekki útgefnir 15. júlí 2007 muni Valsmenn hf. fá greiddar sem nemur tíu milljónum króna á mánuði sem líður frá þeim tíma.“

Á sér margra ára aðdraganda

Brynjar Harðarsson, stjórnarformaður Valsmanna hf., segir félagið ekki geta hafið uppbyggingu á byggingarlandi sínu fyrr en búið sé að gefa lóðaleigusamningana út. „Fyrstu samningarnir milli Vals og Reykjavíkurborgar voru gerðir árið 2001 þegar menn fóru í það að reyna að breyta notkun á Hlíðarenda. Allt skipulag á svæðinu gekk í gegn árið 2004 og þá keyptu Valsmenn hf. landið á tæpar 800 milljónir króna. Í kjölfarið fórum við á fulla ferð við að hanna og nýta landið. Síðan kom borgin til okkar og bað okkur um að fresta framkvæmdum vegna skipulagsbreytinga sem voru aðallega út af Háskólanum í Reykjavík, veglagningu og öðru slíku. Það var því gerður nýr samningur í október 2006 milli Valsmanna og borgarinnar þar sem framkvæmdum var frestað til 1. júlí 2007. Svo kláruðust málin ekki fyrir þann tíma og hafa ekki klárast enn.“

Greiðslur duga ekki fyrir vaxtagreiðslum

Brynjar segir tafabæturnar þó ekki einu sinni duga fyrir vaxtagreiðslum vegna skulda félagsins. „Þessar greiðslur duga ekki fyrir vöxtunum á skuldum okkar sem nema orðið 800 milljónum króna, á íslenskum vöxtum. Það er því ekki eins og það sé einhver gróði í þessum greiðslum fyrir okkur.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert