Færri ungar óléttar

 Óléttum unglingsstúlkum hefur fækkað jafnt og þétt á undanförnum árum svo að ríflega þriðjungi færri stúlkur urðu óléttar árið 2006 en árið 2000, samkvæmt tölum frá Hagstofunni og landlæknisembættinu.

Þar sem stúlkum í aldurshópnum undir tvítugu hefur fjölgað, hefur óléttum hlutfallslega fækkað um 40%. Láta nær jafn margar stúlkur eyða fóstri og ákveða að eiga barnið og hefur sú skipting haldist nokkuð jöfn yfir tímabilið.

Árið 2000 var heimilað að selja neyðarpilluna án lyfseðils auk þess sem Ástráður, félag læknanema, hóf skipulagða kynfræðslu í skólum. Skýrir þetta að stórum hluta þessa fækkun, að sögn Reynis Tómasar Geirssonar, yfirlæknis kvennasviðs Landspítalans.

Björn Bergsson, fagstjóri í félagsfræði við Menntaskólann við Hamrahlíð, nefnir jafnframt aukna aðsókn í framhaldsskólana sem seinki barneignum hjá stúlkum.

Íslenskar stúlkur undir tvítugu hafa lengi verið í 2. sæti í frjósemi á eftir þeim grænlensku, samkvæmt tölum Norðurlandaráðs. Svo er enn samkvæmt nýjustu tölum, frá 2005, en þá áttu fimmtán íslenskar stúlkur af hverjum þúsund barn á meðan þær voru t.d. 67 á Grænlandi, þrettán í Færeyjum og sex í Noregi. Voru hérlendar í 5. sæti yfir fjölda fóstureyðinga sama ár.

Reynir Tómas segir konur annars staðar á Norðurlöndum nota frekar getnaðarvarnir en þær íslensku. Þegar hins vegar verði þungun séu íslenskar konur líklegri til að eiga barnið auk þess að taka þá ákvörðun fyrr en aðrar norrænar konur. Segir hann það m.a. skýrast með því að sambönd innan fjölskyldunnar og samfélagsins séu nánari hérlendis en annars staðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert