Nánast hálfur maður sem utanríkisráðherra

„Þegar frá hefur liðið og ég er kominn með meiri styrk á ný, er ég ekki jafn-sannfærður um að ég hefði dregið mig í hlé strax, ef ekkert hefði komið upp á.“ Þannig svarar Davíð Oddsson, seðlabankastjóri og fyrrverandi forsætisráðherra, spurningu blaðamanns Heilbrigðismála um hvort hann hafi í ljósi veikinda fyrir fjórum árum dregið sig fyrr en ella í hlé sem forsætisráðherra og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins.

Viðtalið birtist í Heilbrigðismálum, tímariti Krabbameinsfélagsins, sem kemur út í dag, og er tekið af Þorgrími Þráinssyni. Davíð segir frá því að hann hafi áður en hann greindist með krabbamein samið við Halldór Ásgrímsson um að þeir skiptu á tilteknum degi um starf forsætis- og utanríkisráðherra.

Síðan segir Davíð: „Ég var utanríkisráðherra í eitt ár en naut þess ekki. Í fyrstu var ég nánast bara hálfur maður. Ég var framan af á verkjalyfjum sem taka sinn toll. Ég var orðinn utanríkisráðherra þegar ég fór í þessar geislavirku joðmeðferðir sem þýddi tilheyrandi afturkipp og máttleysi og þar fyrir utan var ég margar vikur í hvort skiptið að ná upp líkamlegum styrk. Í minningunni finnst mér ég því naumast hafa verið utanríkisráðherra. Samt fór ég í opinberar heimsóknir til Kína, Japans og víðar.

Í samtalinu lýsir Davíð baráttunni við krabbamein frá því að hann fann fyrir miklum verkjum í kviðarholi að kvöldi 21. júlí 2004. Á leiðinni á sjúkrahúsið þetta kvöld fann hann „óþægilega fyrir öllum hraðahindrunum sem hann hafði samþykkt þegar hann var borgarstjóri“.

Á bráðamóttökunni var staðfest að um gallsteina væri að ræða. Þegar verið var að staðsetja steinana með ómskoðun kom í ljós að hann var með hnefastórt krabbameinsæxli í nýra, sem var fjarlægt og sömuleiðis gallsteinarnir. Við nánari skoðun kom í ljós að fjarlægja þurfti kalkkirtil í hálsi.

„Eftir að tveir læknar höfðu tekið stungusýni var ég sendur í sneiðmyndatöku. Fyrri niðurstöður slíkrar myndatöku höfðu ekki bent til neins á þessu svæði. En í þetta skipti sást að ég var með tólf æxli í hálsinum, þar af eitt nálægt slagæð. Þeir tóku líka sýni úr skjaldkirtlinum og fundu krabbamein í honum,“ segir Davíð í Heilbrigðismálum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert