Kaup á byggingarétti ekki samþykkt

Íslensk erfðagreining er til húsa að Sturlugötu 8
Íslensk erfðagreining er til húsa að Sturlugötu 8 mbl.is/Jim Smart

Borgarráð samþykkti sá fundi sínum í dag, með 5 atkvæðum og hjásetu fulltrúa VG og B, að samþykkja ekki kaup á byggingarétti sem gerður hefur verið á milli S10 ehf. og Reykjavíkurborgar um úthlutun lóðar að Sturlugötu að svo komnu máli.

Fréttatilkynning frá Björk Vilhelmsdóttur borgarfulltrúa um málið fer í heild sinni hér á eftir:

„Borgarráð tók fyrir á fundi sínum í dag samkomulag um kaup á byggingarétti sem hafði verið gerður milli S10 ehf. og Reykjavíkurborgar um úthlutun lóðar að Sturlugötu 8. Samkomulagið sem gert var 2. apríl sl. hafði verið staðfest í Framkvæmda- og eignaráði borgarinnar 7. apríl og samþykkt í borgarráði 30. apríl með 6 atkvæðum gegn einu atkvæði Samfylkingarinnar. Mikil pressa var á að klára málið, enda sagt að ef borgarráð samþykkti ekki söluna samhljóða hér og nú, gæti varla orðið af henni. Þegar málið kom til borgarstjórnar kom í ljós óeining í hópi meirihlutans og eftir frestun þar 6. maí var málinu aftur vísað til borgarráðs á fundi borgarstjórnar 20. maí. Síðan þá hefur málinu verið frestað á nokkrum fundum borgarráðs, enda ekki samkomulag innan meirihlutans um lyktir málsins. Borgarráð samþykkti síðan á fundi sínum í dag, með 5 atkvæðum og hjásetu fulltrúa VG og B:

"Í ljósi þess að framtíðarskipulag svæðisins liggur ekki fyrir, sem og þess að afar ólíkar skoðanir eru uppi um framtíðarnotkun þess og þeirrar 7000 fermetra lóðar í eigu Reykjavíkurborgar, sem hér um ræðir, verður að telja ótímabært að úthluta byggingarétti á lóðinni nú. Er því lagt til að borgarráð staðfesti ekki fyrirliggjandi samkomulag að svo komnu máli."

Undirrituð samþykkti tillögu fulltrúa meirihlutans með eftirfarandi bókun, enda ljóst að tekið hafði verið undir sjónarmið Samfylkingarinnar í þessu máli.

"Fulltrúi Samfylkingarinnar í borgarráði fagnar viðsnúningi borgarráðs varðandi úthlutun lóðar í eigu Reykjavíkurborgar að Sturlugötu 8. Áður hafði borgarráð samþykkt úthlutun þessarar lóðar gegn atkvæði Samfylkingarinnar, sem hafði m.a. til hliðsjónar í sínum málflutningi að skipulag svæðisins væri óljóst vegna framtíðaruppbyggingar í Vatrnsmýri. Nú hefur verið tekið undir sjónarmið Samfylkingarinnar og borgarráð samþykkti samhljóma að fresta úthlutun um ótiltekinn tíma þar sem framtíðarskiplag svæðisins liggur ekki fyrir."

Undirrituð stóð jafnframt að bókun með fulltrúm Vinstri grænna og Framsóknar um vinnubrögðin í þessu máli.

"Borgarráðsfulltrúar V, S og B átelja þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í tengslum við sölu á byggingarétti við Sturlugötu 8. Allt frá samþykkt Framkvæmda- og eignaráðs á samningi við S8 þann 17. mars sl., hafa ný gögn verið að berast frá hagsmunaaðilum vegna málsins. Síðan þá hefur meirihlutinn ekki getað komist að niðurstöðu í málinu heldur farið í ótal hringi í hinum ýmsu nefndum og ráðum borgarinnar. Flaustursleg vinnurbrögð af hálfu meirihlutans eru svo sem ekkert nýmæli, en óásættanleg engu að síður."

Eftir stendur spurningin: Hver er það sem ræður ferðinni innan meirihlutans í Reykjavík? Búið var að samþykkja sölu byggingaréttar á Sturlugötu 8 fyrir 260 milljónir, en síðan er hætt við."

Um er að ræða lóðina Sturlugötu 10 og það hvort sameina eigi hana lóðinni að Sturlugötu 8.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert