Dorgdagur í Hafnarfirði

Það er líf og fjör á Dorgdegi í Hafnarfirði.
Það er líf og fjör á Dorgdegi í Hafnarfirði.

Dorgdagurinn mikli verður haldinn á Flensborgarbryggju í Hafnarfirði í dag og byrjar keppnin um hálf tvö. Dorgveiðikeppnin hefur verið haldin í Firðinum hátt í tuttugu ár og nýtur sívaxandi vinsælda. Keppnin er ætluð hafnfirskum börnum 7- 12 ára og tóku um þrjú hundruð börn þátt í keppninni í fyrra. Keppt er í þremur flokkum: Flestu fiskarnir, stærsti fiskurinn og furðufiskur 2008. Hægt er að fá lánuð færi og beitu á staðnum.

Geir Bjarnason, forvarnafulltrúi Hafnarfjarðar, sem kallaður hefur verið faðir keppninnar segir að stærsti fiskurinn sem veiddist í fyrra hafi verið um 650 grömm. Hafi þeir verið að léttast í gegnum tíðina. Í fyrra var ákveðið að víkka út hugtakið furðufiskur enda margt skemmtilegt að koma upp úr höfninni og var furðufiskurinn í fyrra ígulker. Megnið af aflanum er ufsi og koli. Í fyrra veiddust milli þrjú og fjögur hundruð fiskar sem var óvenju gott og allir fengu 1-2 fiska.

Sá sem mest veiddi í keppninni 2007 veiddi tólf fiska. „Margir krakkanna þekkja bryggjuna og vita hvar veiðist best. Bryggjan hefur sína veiðistaði eins og ár og vötn, “ segir Geir.

Búist er við miklum fjölda barna í dag þar sem einkar vel viðrar til dorgveiða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert