Bónus hækkar mest

Vörukarfa ASÍ hækkaði mest í Bónus, um 2,7% á milli verðmælinga verðlagseftirlits ASÍ í annarri og þriðju viku júní. Karfan hækkaði um 1,9% í verslun Krónunnar á milli vikna og um 2% í klukkubúðinni Samkaupum-Strax. Þetta eru nýjustu niðurstöður úr könnunum verðlagseftirlitsins sem fylgist með verði í matvöruverslunarkeðjum í hverri viku og skoðar breytingar á verið almennrar innkaupakörfu fyrir fjölskyldu.

Kaskó eina lágvöruverslunin sem ekki hækkaði

Verð vörukörfunnar hækkaði í öllum lágvöruverðsverslunum að Kaskó undanskilinni þar sem verðið var nánast óbreytt á milli vikna. 2,7% verðhækkun á körfunni í Bónus er tilkomin vegna hækkana á kjötvörum í körfunni en aðrir liðir hækka einnig og hafa grænmeti og drykkjarvörur þar mest áhrif til hækkunar. Tæplega 2% hækkun á vörukörfunni í Krónunni má einnig rekja að mestu til hækkana á kjötvörum en einnig að nokkru til hækkana á drykkjarvörum.

Vörukarfan hækkaði um rúmlega 1% í Nettó á milli vikna sem orsakast af hækkunum á kjötvörum, drykkjarvörum og hreinlætisvörum í körfunni.

Nóatún hækkar um 0,8% á milli vikna

Í stórmörkuðunum hækkaði vörukarfa ASÍ um 0,8% í Nóatúni og um 0,5% í Hagkaupum á milli mælinga í 24. og 25. viku en lækkaði í Samkaupum-Úrval um 1,5%. Lækkunin stafar að mestu af lækkun á kjötvörum í körfunni en á móti vegur talsverð hækkun á hreinlætis- og snyrtivörum. Í Klukkubúðunum var lítil breyting á verði körfunnar í 10-11 og 11-11 á milli vikna en karfan hækkað um 2% í Samkaupum-Strax sem rekja má til hækkunar á kjötvörum.

Nánar um verðkönnun ASÍ  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert