Meðvituð ákvörðun að bíða með framkvæmdir á Egilsstöðum

Það var meðvituð ákvörðum Fljótsdalshéraðs að fresta flestum stærri framkvæmdum, á þess vegum, fram yfir byggingartíma virkjunar við Kárahnjúka og álvers á Reyðarfirði til að tryggja áframhaldandi góða verkefnastöðu aðila sem m.a. vinna að verklegum framkvæmdum á svæðinu. Stækkun grunnskólans á Egilsstöðum er eitt þessara verkefna og er undirbúningur þess verks búinn að standa yfir undanfarin tvö ár. Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirlýsingu frá fulltrúum í bæjarstjórn.

„Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum undanfarna daga um ný- og endurbyggingu Egilsstaðaskóla á Fljótsdalshéraði vilja undirrituð koma eftirfarandi staðreyndum á framfæri:

 Fljótsdalshérað er eitt af þeim sveitarfélögum sem hefur nú um langt skeið stækkað og eflst jafnt og þétt. Börnum fjölgar mikið og efla þarf bæði leikskóla- og grunnskólastig með tilheyrandi byggingaframkvæmdum. 

Það var meðvituð ákvörðum sveitarfélagsins að fresta flestum stærri framkvæmdum, á þess vegum, fram yfir byggingartíma virkjunar við Kárahnjúka og álvers á Reyðarfirði til að tryggja áframhaldandi góða verkefnastöðu aðila sem m.a. vinna að verklegum framkvæmdum á svæðinu.

Stækkun grunnskólans á Egilsstöðum er eitt þessara verkefna og er undirbúningur þess verks búinn að standa yfir undanfarin tvö ár.

Eftir miklar vangaveltur bæjarstjórnar og starfsmanna Fljótsdalshéraðs og ráðgjafa þeirra um fjármögnun, hönnun og byggingu skólans var tekin sú ákvörðun að leita samstarfs við Eignarhaldsfélagið Fasteign hf (EFF). Markmið samstarfsins voru að EFF myndi byggja Grunnskólann á Egilsstöðum, en félagið hefur séð um slíkar framkvæmdir fyrir sveitarfélög víðs vegar um landið mörg undanfarin ár á hagkvæman og árangursríkan hátt.  Fljótsdalshérað myndi síðan leigja mannvirkið af EFF á sama hátt og tíðkast hefur hjá sveitarfélögum sem unnið hafa með félaginu og m.a. var gert á Fljótsdalshéraði með gervigrasvöllinn í Fellabæ og Leikskólann Skógarlönd á Egilsstöðum.

EFF er félag sem Fljótsdalshérað er hluthafi að ásamt 11 öðrum sveitarfélögum og þremur bankastofnunum. Bæjarstjórn ákvað að auka hlut sinn í félaginu með því að leggja Egilsstaðaskóla inn í  það, en jafnframt var gerður samningur við EFF um tillögu að stækkun skólans.  Niðurstaða þeirrar vinnu er afar metnaðarfull og glæsilega hönnuð bygging sem er hagkvæm og vel skipulögð út frá þörfum nemenda og starfsmanna. Fyrir liggur teikning að nútímalegum grunnskóla sem þjónar þörfum samfélagsins og íbúarnir geta verið stoltir af.

EFF setti verkefnið, í vetur,  inn í sérstakt félag, Fasteignafélag Fljótsdalshéraðs, sem gerði samning við Malarvinnsluna ehf. um að annast stýriverktöku og uppsetningu eininga, en þar gat Malarvinnslan boðið upp á mjög góða og hagkvæma lausn. Aðra undirliði á að bjóða út þar sem það er talið hagkvæmast. Rétt er að taka fram að þeir grunnskólar sem EFF hefur byggt annars staðar á landinu, hafa reynst hagkvæmir án þess að það hafi komið niður á gæðum og var gætt sömu sjónarmiða við hönnun á Egilsstaðaskóla.

Þegar samningum var lokið milli EFF og Malarvinnslunnar og framkvæmdir áttu að geta hafist kom í ljós að lánskjör voru ekki hagstæð á almennum markaði.  Félagið hafði einnig verið í viðræðum við Lánasjóð sveitarfélaga um fjármögnun verkefnisins þar sem um 100% opinbera framkvæmd er að ræða.   Lánasjóður sveitarfélaga gaf svo út í maí, þegar framkvæmdir voru að hefjast, að sjóðurinn myndi einungis lána til félaga í 100 % eigu sveitarfélaga.  Eftir að hafa leitað sér lögfræðilegrar og viðskiptalegrar rágjafar var því ákveðið að Fljótsdalshérað keypti Fasteignafélag Fljótsdalshéraðs með öllum réttindum og skyldum af  Eignarhaldsfélaginu Fasteign hf og gerði síðan þjónustusamning við EFF  til að ekki yrðu frekari tafir á byggingarframkvæmdum. Í þjónustusamningnum kemur fram að EFF mun hafa yfirumsjón með hönnun, þróun, öflun leyfa, framkvæmdastjórn og verkframkvæmdum vegna uppbyggingar húseignarinnar nr. 11 við Tjarnarlönd á Egilsstöðum, Egilsstaðaskóla, að höfðu samráði við stjórn Fasteignafélags Fljótsdalshéraðs. Í samningi á milli aðila er að loknum byggingaframkvæmdum síðan gert ráð fyrir því að EFF eigi kauprétt að Fasteignafélagi Fljótsdalshéraðs, sem á skólabygginguna, svo það er hagur allra aðila að sem hagkvæmast sé staðið að byggingarframkvæmdum.

 Fljótsdalshérað hefur í þessu máli þurft að takast á við óvæntar aðstæður vegna áhrifa hinnar alþjóðlegu lánsfjárkreppu. Sveitarfélagið þurfti að yfirtaka félag sem þegar hafði gert samninga við byggingaraðila um grunnskólabyggingu og ákvað að reyna með þeim aðgerðum, sem eðlilegt er að ábyrgt sveitarfélag nýti, að koma í veg fyrir tafir á verkinu til að viðhalda þeim krafti og uppbyggingu sem ríkir í samfélaginu. Það er hlutverk sveitarfélagsins að leita allra leiða til að örva atvinnustarfsemi innan þess.  Sérstaklega þegar samdráttur á sér stað eins og nú virðist vera m.a. á byggingamarkaði og meðal iðnaðarmanna.  Það telur sveitarfélagið sig hafa gert í þessu máli á löglegan hátt og ávirðingar um annað eru algerlega úr lausu lofti gripnar og ekki til neins annars ætlaðar en að kasta rýrð á heiðarleg vinnubrögð starfsmanna og bæjarfulltrúa sveitarfélagsins.

Stefnt er að því að taka í notkun glæsilega skólabyggingu í þéttbýlinu á Egilsstöðum árið 2009 og kostnaður við framkvæmdina verður sá sami og reiknað hafði verið með í undirbúningsferlinu. Framkvæmdin mun efla atvinnulíf í sveitarfélaginu og tryggja áframhaldandi farsælt skólastarf á Fljótsdalshéraði, samfélaginu til heilla," að því er segir í yfirlýsingu sem send hefur verið á fjölmiðla.

Undir þetta rita: Soffía Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs, Jónína Rós Guðmundsdóttir, formaður bæjarráðs Fljótsdalshéraðs og Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert