Stjórnvöld breyti aðkomu sinni að húsnæðislánamarkaði

Morgunblaðið/Steinunn

Sú staða sem nú blasir við á húsnæðismarkaði verður ekki rakin til bankanna heldur þess  er loforð um 90% íbúðalán voru færð í stjórnarsáttmála í kjölfar Alþingiskosninga 2003, samkvæmt því sem fram kemur í nýrri greinargerð Samtaka atvinnulífsins.

Fram kemur á fréttavef samtakanna að í greinagerðinni komi fram að sú kólnun sem nú gengur yfir fasteignamarkaðinn sé afleiðing mikillar þenslu á undanförnum árum og að hún hafi verið fyrirséð og við henni varað m.a. af Samtökum atvinnulífsins og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands.

Stefnumörkun stjórnvalda sumarið 2003 og upptaka 90% lána Íbúðalánasjóðs sumarið 2004 hafi hrundið þessari atburðarrás af stað og mikil hækkun lána og lánshlutfalls almennra lána í opinbera íbúðalánakerfinu hafi leitt til sviptinga á verði íbúðahúsnæðis og röskun jafnvægis í þjóðarbúskapnum.

Þar segir einnig að aðgerðir ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum séu skynsamlegt skammtímaúrræði til að freista þess að afstýra hruni á fasteignamarkaði, bæta lausafjárstöðu og stuðla að eðlilegra ástandi á innlendum lánamarkaði. Í þessum ráðstöfunum felist þó hvorki lausn varðandi aðgang íslenskra fjármálafyrirtækja að erlendu lánsfé né ásættanleg langtíma lausn á húsnæðislánamarkaði.

Þá segir að Íbúðalánasjóður búi við forgang að langtíma sparnaði þjóðarinnar í krafti ríkisábyrgðar á skuldbindingum hans og löggjafar um útbreiddustu langtímaskuldabréf á markaðnum, íbúðabréf.  Bankar og önnur fjármálafyrirtæki hafi ekki átt kost á sambærilegri fjármögnun heldur hafa í vaxandi mæli reitt sig á erlenda fjármögnun. Þegar slík leið nánast lokast bitni það óhjákvæmilega á útlánastarfsemi þeirra.

Farsælast sé fyrir almenning í landinu að geta átt öll sín helstu fjármálaviðskipti við viðskiptabanka sinn eða sparisjóð. Þá standist fyrirkomulag Íbúðalánasjóðs ekki ríkisstyrkjaákvæði EES-samningsins. Það þurfi því að vera forgangsmál að stjórnvöld geri nauðsynlegar breytingar á aðkomu sinni að húsnæðislánamarkaði og skilji að félagslega lánastarfsemi, þar sem þau hafa hlutverk, og almennar lánveitingar sem betur er komið í höndum fjármálafyrirtækja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert