70 prósent töldu herpes læknanlegt

Reuters

Könnun meðal 16 ára unglinga sem gerð var veturinn 2005-6 leiddi í ljós að tæp 70% 16 ára unglinga töldu að hægt væri að lækna herpessýkingu með sýklalyfjum. Þá töldu tæp 12% að hægt væri að lækna HIV. Þetta kemur fram í 6. tölublaði Læknablaðsins en þar eru bornar saman kannanir á þekkingu og viðhorfum 16 ára unglinga til kynfræðslu, kynsjúkdóma og getnaðarvarna. Fyrri könnunin var gerð árið 2001 en sú síðari veturinn 2005-6.

Rekkjunautar eigi að vera margir

Í greininni kemur fram að viðhorfsbreytingar varðandi kynhegðun 16 ára unglinga virðast ekki hafa verið miklar. Algengast er enn að telja að kynlíf geti hafist á unga aldri og að rekkjunautar eigi að vera margir. Veturinn 2005-6 fannst 67% eðlilegt að 14-16 ára unglingar stunduðu kynlíf en aðeins rúm 8% töldu aldurshópinn tilbúinn að taka afleiðingum kynlífs. Í báðum rannsóknunum fannst langflestum eðlilegt að hefja kynlíf fyrir 16 ára aldur.

Þá kemur einnig fram að efla þurfi kynfræðslu frá foreldrum til barna en þeir ræði frekar um tíðahring kvenna og barneignir við börn sín en kynsjúkdóma og getnaðarvarnir. Aðspurðir sögðust flestir unglinganna hafa fengið mestu fræðsluna í skólanum. Þar á eftir komu vinir og kunningjar en mjög fáir merktu við foreldra.

Vægi fóstureyðinga og kláms eykst

Síðari könnunin leiddi í ljós að meirihluta unglinga fannst að skólum bæri að veita kynfræðslu, fræðslu um getnaðarvarnir og kynsjúkdóma. 97% fannst að kynfræðslan ætti að hefjast í 8. bekk eða fyrr og fannst flestum að fræðslan ætti að vera í höndum lækna- eða hjúkrunarfræðinema en í fyrri könnuninni merktu flestir við skólahjúkrunarfræðinga. Þá töldu flestir líklegra að umræður sköpuðust væri fræðarinn ókunnugur.

Milli kannana breyttust þau atriði sem unglingarnir vildu sjálfir leggja áherslu á í fræðslunni. Veturinn 2005-6 fannst þeim mikilvægara að ræða um fóstureyðingar, kynsjúkdóma, getnaðarvarnir, sam- og tvíkynhneigð og klám en árið 2001. Ekki eins mikilvæg var fræðsla um gerð og starfsemi kynfæra, tíðablæðingar eða samskipti kynjanna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert