Þingmenn vilja Þjóðhagsstofnun

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs grænna vill að þing verði kallað saman til að ræða alvarlega stöðu sem sé uppi í efnahagsmálum. Lausnin sé ekki að efna til nýrrar stóriðju og útrásarveislu, eða tala um aðild að Evrópusambandinu.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, segir nauðsynlegt að þingið bregðist við vandanum, til að mynda í fjáraukalögum, ekki síst til að auka tiltrú atvinnulífsins svo ekki komi til harðra aðgerða og uppsagna í haust.

Steingrímur segir jákvætt að Geir H, Haarde, forsætisráðherra, ráði sér efnahagsráðgjafa. Það yrði þó að vera mikill afreksmaður sem gæti leyst vandann á einungis sex mánuðum. Hann spyr hvort það sé þá ekki rétt að hann fari að taka til starfa. 

Vinstri grænir hafa barist fyrir endurreisn Þjóðhagsstofnunar og hafa nú fengið liðsauka úr óvæntri átt, eða frá Samfylkingunni og Framsóknarflokknum en stofninun var lögð niður í stjórnartíð Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Steingrímur segist telja líklegt að þingmeirihluti sé fyrir málinu og á það verði látið reyna strax í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert