Segir rangt farið með um uppsagnir

Morgunblaðið sýndi mikið ábyrgðarleysi með birtingu forsíðufréttar sinnar í gær um fjöldauppsagnir í kjölfar samruna Kaupþings og SPRON, að mati Guðmundar Haukssonar, forstjóra SPRON. Hann sagði að tölulegar staðhæfingar í fréttinni væru meira og minna rangar.

Um viðkvæmt mál að ræða

„Síðan er verið með vangaveltur og haft eftir einhverjum ónafngreindum upplýsingar um hvað sé líklegt að taki við. Mér finnst ákaflega óábyrgt að fjalla með þessum hætti um störf fjölda fólks. Hér er um viðkvæmt mál að ræða því starfsfólk bíður nú eftir niðurstöðu hluthafafundar og eftirlitsaðila um samrunann. Málflutningur af þessum toga er einungis til þess fallinn að valda því óþægindum,“ sagði Guðmundur.

Í fréttinni segir að meðalárslaun starfsmanna SPRON í fyrra hafi verið um 10 milljónir króna. Guðmundur sagði að samkvæmt ársuppgjöri SPRON fyrir árið 2007 hefðu meðallaunin verið 7,04 milljónir króna. Hann vísaði einnig í töflu í 8. tölublaði Frjálsrar verslunar 2007 um hæstu launin í fjármálafyrirtækjum á árinu 2006. „Þar sjáum við að meðallaun í SPRON voru þá 6,244 milljónir á meðan þau voru 9,5-10,6 milljónir í viðskiptabönkunum. Það er alrangt að það sé verið að greiða há laun í SPRON miðað við önnur fjármálafyrirtæki, þau eru innan við það sem gerist hjá öðrum fjármálafyrirtækjum á markaðnum,“ sagði Guðmundur. Hann sagði að ekkert lægi nú fyrir um endurskoðun launa núverandi yfirmanna og millistjórnenda SPRON eftir samruna.

Yfirlýsing um að starfsfólki í útibúaneti verði ekki sagt upp

Í fréttinni sagði að um 250 manns störfuðu hjá SPRON, þar af um 75 í útibúanetinu og um 175 í höfuðstöðvum fyrirtækisins. Guðmundur sagði þetta rangt með farið. Í heild störfuðu yfir 260 manns hjá SPRON. Í útibúanetinu störfuðu 113 manns og ellefu í höfuðstöðvunum. Hinir ynnu í Frjálsa fjárfestingabankanum, SPRON verðbréfum. SPRON Factoring, Netbankanum og ýmsum fleiri dótturfélögum í eigu SPRON. Þá ynni hópur fólks í stoðdeildum fyrir öll fyrirtæki samstæðunnar.

Guðmundur sagði að þegar talsmenn SPRON og Kaupþings gerðu grein fyrir niðurstöðum samningaviðræðnanna hefði komið fram að farið hefði verið yfir starfsmannahald að svo miklu leyti sem það var hægt. „Fyrir hendi er yfirlýsing um að ekki verður sagt upp starfsfólki sem vinnur í útibúaneti SPRON. Þar fyrir utan er ekki ljóst á þessari stundu með hvaða hætti verður haldið á málum. Það þarf fyrst að ljúka formlegum þáttum, samþykki hluthafafundar og að fá samþykki eftirlitsaðila til að hægt sé að halda áfram vinnu við undirbúning samrunans. Þar af leiðandi liggja ekki fyrir ákvarðanir um neitt í þessa veru.“ gudni@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert