Settu brunaboða í gang

Lögreglumenn við höfuðstöðvar Landsvirkjunar.
Lögreglumenn við höfuðstöðvar Landsvirkjunar. mbl.is/Júlíus

Fámennur hópur liðsmanna samtakanna Saving Iceland heldur enn til í anddyri húsnæðis Landsvirkjunar við Háaleitisbraut. Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, segir fólkið ekki vera til ama og að það trufli ekki vinnu í húsinu.

Þorsteinn segir þrjár ungar konur hafa komið í Landsvirkjun í morgun og sagst ætla að þiggja boð Friðriks Sophussonar, forstjóra Landsvirkjunar, um að koma til fundar við hann.

Þegar þær hafi verið komnar upp á skrifstofu hans, þar sem þeim hafi verið fært kaffi, hafi ein þeirra undið sér að brunaboða sem þar var og sett hann í gang. Þær hafi síðan hlaupið út úr húsinu.  Þorsteinn segir þetta hafa orsakað litla truflun á vinnu enda hafi strax legið fyrir hvað væri á seyði.

Skömmu síðar kom nokkru stærri hópur á vegum samtakanna í húsið. Hefur hann haldið til í anddyri þess þar sem hann er engum til ama, samkvæmt upplýsingum Þorsteins. Innganginum hefur þó verið lokað og nota starfsmenn fyrirtækisins aðra innganga.

Hefur fólkinu verið sagt að því sé velkomið að vera í anddyrinu eins lengi og það vilji. Fleiri fá hins vegar ekki að fara þangað inn og þeir sem fara það út fá ekki að koma inn aftur.

Lögregla er ekki lengur á staðnum, samkvæmt upplýsingum Þorsteins en þar eru öryggisverðir frá Securitas.     

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert