„Stórhættulegt að kasta önglum og girni"

Meðfylgjandi er mynd af Tinna þar sem sést í 15 …
Meðfylgjandi er mynd af Tinna þar sem sést í 15 cm. langan skurð á kvið hans eftir aðgerðina í gær. 6 ára "systir" hans heldur á önglinum sem tekinn var úr maga hans. Ómar Örn Jónsson

"Við viljum benda veiðimönnum á að ganga vel um og henda ekki önglum eða girni frá sér og ganga vel frá veiðarfærum eftir veiðiferðir," segir Sif Traustadóttir, dýralæknir hjá Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti, og formaður dýralæknafélagsins. 

Á rúmri viku hafa tveir hundar gengist undir skurðaðgerð á Dýralæknamiðstöðinni til þess að fjarlægja öngul og girni úr innyflum þeirra.  Sif segir að svo virðist sem veiðimenn séu ekki að ganga nógu vel um og kasti veiðarfærum frá sér.    „Þetta er stórhættulegt, ekki bara fyrir hunda, heldur önnur dýr og lítil börn," segir Sif og bætir við að það sé meiriháttar aðgerð að fjarlægja svona, þar sem bæði magi og þarmar hafi verið opnaðir á öðrum hundanna.

Heimilishundurinn Tinni varð fyrir því óláni að gleypa öngul á girni fyrir utan veiðihús síðastliðinn föstudag.
 
„Því miður sat öngulinn í Tinna rígfastur í maga hans og gekkst hann því undir stóra skurðaðgerð í gær þar sem öngull var fjarlægður úr maga og hnoðri af girni úr þörmum," segir Ómar Örn Jónsson, eigandi Tinna.

Að sögn Sifjar skila aðskotahlutir sér stundum sjálfir en önglar og girni eigi það til að festast.  Fyrir viku síðan hafði annar hundur étið makríl með öngli, sem var kastað út í runna, og þurfti hann einnig að gangast undir skurðaðgerð.

Ómar bendir á að almenningur eigi að geta treyst því að hundaeigendur gangi vel um landið og hirði upp eftir hunda sína.  Því megi hundaeigendur gera þá kröfu að stangveiðimenn gangi vel frá veiðistað og það sé óhætt að taka með sér hunda í veiðiferðir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert