Dropinn dýr þótt verðið lækki ytra

AP

„Eldsneytismarkaður hefur í sumar haft einkenni fákeppni, þar sem menn leita í ákveðinn farveg. Álagning var að aukast,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, og bætir við að mikilvægt sé að félögin lækki verð í samræmi við heimsmarkaðsverð.

Undanfarnar þrjár vikur hefur heimsmarkaðsverð lækkað um tæplega 20% en sú lækkun hefur ekki skilað sér nema að takmörkuðu leyti til neytenda á Íslandi.

„Þróunin hefur verið þannig að álagning á eldsneyti hefur verið að hækka hérlendis,“ segir hann og bætir við að hún hafi verið ríflega fimm krónum hærri í júlí en í júní á þessu ári.

Gagnrýna aukinn kostnað

„Álagningartopparnir hafa verið í október en núna aldrei hærri en í liðnum júlí það sem af er árinu,“ segir hann og bendir á að FÍB hafi gagnrýnt það að neytendur þurfi að greiða mikinn kostnað vegna álagningar og flutnings á bensíni.

„En nú hafa verið hressilegar lækkanir eldsneytis á heimsmarkaði sem hafa skilað sér í lækkun á kostnaðarverði hér að einhverju leyti,“ segir hann. Runólfur ítrekar að þróunin framan af sumri hafi ekki verið í átt að lækkunum í samræmi við heimsmarkaðsverð en nú séu félögin að lækka verðið á sanngjarnan hátt.

Umræðan stuðlar að lækkun

„Olíufélögin á Íslandi hafa tekið við sér, væntanlega vegna aukinnar umræðu,“ segir Runólfur en tekur fram að almenningur hafi augu á þróun verðlags og það hafi einnig áhrif. „Það er auk þess eðlilegt að fulltrúar stjórnvalda hafi vakandi auga með þróun á markaði,“ segir hann og bætir við að innra eftirlit sé mikilvægt.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, tekur fram að eftirlit sé gott með eldsneytismarkaðnum. „Það hafa ekki komið fram skýrar vísbendingar um að olíufélögin séu með háttsemi sinni að brjóta samkeppnislög,“ segir hann en bendir jafnframt á að reglulega berist ábendingar sem séu skoðaðar. „Á heimasíðunni okkar er hægt að koma upplýsingum á framfæri,“ segir hann.

Í hnotskurn
Útsöluverð á bensínlítra í sjálfsgreiðslu á þjónustustöð var 166,70 krónur í gær en 165,10 krónur á sjálfsafgreiðslustöðvum. Útsöluverð á dísillítra var 183,60 krónur í sjálfsafgreiðslu á þjónustustöð og á sjálfsafgreiðslustöðvum 182,0 krónur í gær.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert