Framkvæmdir hefjast á ný við Búðarhálsvirkjun

Frá framkvæmdum við Búðarhálsvirkjun fyrir nokkrum árum.
Frá framkvæmdum við Búðarhálsvirkjun fyrir nokkrum árum. mbl.is/RAX

Landsvirkjun hefur ákveðið að halda áfram nú þegar framkvæmdum við Búðarhálsvirkjun. Segir fyrirtækið, að þar séu öll leyfi fyrir hendi og því unnt að bjóða út framkvæmdir með mjög stuttum fyrirvara. Undirbúningsframkvæmdir fyrir virkjunina voru hafnar 2002 en var frestað 2003.

Landsvirkjun telur nú, að ekki sé unnt að bjóða út byggingarframkvæmdir vegna virkjana í Þjórsá fyrr en í fyrsta lagi í byrjun næsta árs. Til að standa við annars vegar samkomulag við Rio Tinto Alcan um orkusölu, innan þess tímaramma sem þar er settur, vegna framleiðsluaukningar í álverinu í Straumsvík og hins vegar við Verne Holding um orku fyrir netþjónabú hefur Landsvirkjun ákveðið að hefja aftur framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun,

Fyrstu útboðsgögn vegna framkvæmdanna verða send út 11. ágúst nk. Um er að ræða útboð á vélum og rafbúnaði. Boðinn verður út í einu útboði vél- og rafbúnaður fyrir Búðarhálsvirkjun sem og fyrir virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Segir Landsvirkjun, að þetta sé gert til þess að fá fram betra verð, auk þess sem verulegt hagræði hljótist af því að hafa samstæðan búnað í öllum virkjununum.

Í útboðinu verður valréttur á kaupum búnaðar fyrir virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár, fram til síðari hluta næsta árs. Ekki er hægt að ganga frá kaupum þess búnaðar fyrr en tilskilin leyfi vegna þeirra virkjana liggja fyrir. Byggingarframkvæmdir vegna Búðarhálsvirkjunar verða boðnar út í haust.

Fjórar virkjanir í undirbúningi

Landsvirkjun undirbýr nú fjórar virkjanir á Suðurlandi. Annars vegar er um að ræða Búðarhálsvirkjun, 80 MW virkjun, sem nýtir fallið frá útfalli Hrauneyjafossvirkjunar við ármót Köldukvíslar og Tungnaár niður í Sultartangalón.

Þá er hefur fyrirtækið unnið að undirbúningi þriggja virkjana í neðrihluta Þjórsár:Hvammsvirkjunar (82 MW), Holtavirkjunar (53 MW) og Urriðafossvirkjunar (130 MW). Mati á umhverfisáhrifum virkjananna þriggja lauk árið 2003 með jákvæðri niðurstöðu. Virkjanirnar hafa verið verkhannaðar og unnið er við lokahönnun og undirbúning og að gerð útboðsgagna.

Stjórn Landsvirkjunar ákvað í nóvember í fyrra, að fyrirtækið myndi ekki að sinni ganga til samningaviðræðna um orkusölu til nýrra álvera á Suður- eða Vesturlandi. Þess í stað yrði lögð áhersla á að auka fjölbreytni viðskiptavina til að fá sem hæst raforkuverð og dreifa áhættu. 

Landsvirkjun hefur samið við Verne Holding um rafmagnssölu til netþjónabús sem fyrirtækið hyggst koma upp á Keflavíkurflugvelli. Viðræður standa nú yfir um orkusölu til nokkurra fyrirtækja sem yrðu væntanlega staðsett í Þorlákshöfn. Landsvirkjun áformar að anna orkuþörf þeirra með byggingu virkjana í neðrihluta Þjórsár. Takist að ná samningum við þau munu skapast nokkur hundruð ný störf á svæðinu.

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert