Mannbjörg í háloftunum

Snarræði flugmanns Iceland Express bjargaði lífi konu um þrítugt sem missti meðvitund á leiðinni frá Barcelona til Íslands síðastliðinn föstudag. Konan hné niður 45 mínútum eftir flugtak, með óreglulegan hjartslátt og miklar öndunartruflanir.

„Áhöfnin byrjaði á því að kanna hvort um borð væri læknir. Svo reyndist vera og eftir að hafa kannað ástand konunnar lagði hann til að við lentum eins fjótt og mögulegt var,“ segir flugmaðurinn. Hann vill af virðingu við kollega sína ekki láta nafns síns getið „enda hefðu þeir allir brugðist eins við“.

Um mjög alvarlegt astmakast var að ræða, en konan hafði gleymt að hafa lyf sín í meðferðis. Reynt var að gefa henni súrefni og astmalyf um borð, en án árangurs.

Hefði getað látist

Flugmanninum tókst að lenda í Basel í Sviss. Þar dvaldist konan í einn og hálfan sólarhring á spítala, en er nú komin til Íslands þar sem hún heimsækir ættingja. Læknar tjáðu henni að hún hefði trúlega látist af súrefnisskorti ef ekki hefði verið fyrir snarræði flugmannsins.

Flugmaðurinn segir að lendingin hafi gengið vel, en þegar vél er þetta nýlega tekin á loft og full af eldsneyti, er erfitt að lenda henni með góðu móti. Því þurfti flugmaðurinn að bregða á það ráð að brenna eldsneyti eins og hægt var áður en hann lenti, meðal annars með því að setja niður hjólin.

Aðspurður segir hann ákvörðun um að lenda ekki hafa verið erfiða. Hann segist hafa lent í því einu sinni til tvisvar á ári á flugmannsferli sínum að þurfa að lenda vél sökum veikinda farþega. „Ég drýgði enga hetjudáð. Þetta er hluti af starfi okkar og við erum þjálfaðir til að taka ákvarðanir við erfiðar aðstæður.“

Vegna vinnuverndarlöggjafar mátti áhöfnin ekki halda áfram flugi. „Því var ekki annað í stöðunni en að koma farþegum á hótel yfir nóttina,“ segir Lára Ómarsdóttir, fjölmiðlafulltrúi Iceland Express. Hún segir farþega um borð hafa sýnt þessu mikinn skilning, en þeir gátu haldið áfram ferð sinni daginn eftir.

Lára segir flugfélagið hafa greitt fyrir dvöl farþeganna á hóteli, en reiknar með að tryggingafélag greiði kostnaðinn til baka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert