Ríkisstjórnin segir nei við ofbeldi gegn konum

Undirskriftaátakið Segjum NEI við ofbeldi gegn konum hófst í dag.
Utanríkisráðherra, samgönguráðherra og heilbrigðisráðherra undirrituðu áskorunina fyrir hönd ríkisstjórnarinnar en átakið er hvatning til ríkisstjórna heims að grípa til aðgerða til að binda endi á ofbeldi gegn konum.

„Ef eitthvað skiptir máli i samfélögum heims þá er það að auka réttindi og bæta stöðu kvenna, ekki bara fyrir konur heldur samfélagið allt. Við skulum ekki gleyma því að konur eru ekki bara fórnarlömb heldur einnig gerendur í eigin lífi.  Konur um allan heim taka málin í sínar hendur og þess vegna er svona átak mikilvægt því að það styður þær í því,“ sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra á fjölmiðlafundi hjá UNIFEM á Íslandi í morgun um leið og hún hvatti alla ráðherra, þingmenn og almenning til að leggja átakinu lið.
 
Í tilkynningu kemur fram að í nóvember síðastliðnum fór UNIFEM af stað með átakið „Say NO to Violence against Women“ í samstarfi við velgjörðarsendiherra sinn Nicole Kidman. Það átak mun standa yfir í eitt ár. Landsnefnd UNIFEM á Íslandi opnaði í dag sérstaka íslenska heimasíðu tileinkaða átakinu til þess að hvetja Íslendinga til þess að ljá málefninu lið og skrifa nafn sitt undir áskorun til ríkisstjórna heims.
 
„Ofbeldi gegn konum er málefni sem getur ekki beðið. Að minnsta kosti ein af hverjum þremur konum er barin, þvinguð til kynlífs eða misnotuð á annan hátt einhvern tímann á lífsleiðinni. Fimmta hver kona verður fórnarlamb nauðgunar eða tilraunar til nauðgunar.

Mansal, kynferðisleg áreitni, limlesting á kynfærum kvenna, morð vegna heimanmunds, heiðursmorð og útburður stúlkubarna eru hluti af sama vandamáli, þetta er allt ofbeldi gegn konum. Ekkert land, engin menning, engin kona ung eða gömul, er ónæm fyrir þessari plágu. Alltof oft er komist upp með þessa glæpi án þess að refsað sé fyrir og ofbeldismennirnir ganga lausir. “ sagði Regína Bjarnadóttir stjórnarformaður UNIFEM á Íslandi á blaðamannafundi í dag þegar hún vakti máls á mikilvægi þess að ríkisstjórnir heims gripu til aðgerða gegn kynbundnu ofbeldi.

Átakið mun standa yfir í 12 vikur og lýkur þann 6. nóvember næstkomandi. Þá munu undirskriftirnar verða sendar formlega til höfuðstöðva UNIFEM í New York, en heimsátakinu lýkur þann 25. nóvember á baráttudegi Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi.

Vefur Unifem á Íslandi þar sem hægt er að skrifa undir 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert