Nýr veruleiki sveitarfélaga

Vinna við undirbúning að flutningi málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga er komin á fulla ferð en auk þess eru á vettvangi stjórnsýslunnar uppi hugmyndir um mikla fækkun sveitarfélaga á næstu árum.

Í þeirri vinnu sem unnin hefur verið hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga hefur verið miðað við að sveitarfélögin taki við málefnum fatlaðra árið 2011 en einnig hefur verið unnið að flutningi málefna aldraðra frá ríki til sveitarfélaga, þótt sú vinna sé skemmra á veg komin.

Ef sveitarfélögin taka við báðum þessum málaflokkum, þá vex hlutur sveitarfélaga í opinberri samneyslu úr um 32–35% í yfir 40%. Umfangi þessara málaflokka má líkja við flutning grunnskólans til sveitarfélaganna um miðjan seinasta áratug.

Málefni sveitarfélaga heyra undir samgönguráðuneytið og segist Kristján Möller samgönguráðherra sannfærður um að unnt sé að láta sveitarfélögin taka við málefnum fatlaðra á kjörtímabilinu.

Styrkja þarf sveitarfélögin

Kristján segir að styrkja þurfi sveitarfélögin til að taka við málaflokknum auk annarra verkefna frá ríkinu, en hann hefur kynnt hugmyndir sínar um eflingu sveitarstjórnarstigsins og hvort tímabært sé að auka lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga úr 50 í 1.000. Verði íbúaþröskuldurinn stilltur á 1.000 hefði það í för með sér mikil umskipti og fækkun niður í 30 sveitarfélög, en þau eru nú 79.

Í samgönguráðuneytinu er hafin mikil vinna við breytingar á sveitarstjórnarlögum sem gætu komið fram í frumvarpi á næsta þingi.
Halldór Halldórsson, formaður SÍS, segir að sveitarfélögin í landinu vilji frekari sameiningu sveitarfélaga, en með frjálsri aðferð. „Komi ráðherra fram með frumvarp þessa efnis, þá þarf það að fá sérstaka umfjöllun á vettvangi sveitarfélaganna,“ segir hann.
 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert