Gestalæti á Pollinum

mbl.is/Sverrir Páll

Það er engu likara en andanefjurnar tvær séu sestar að á Akureyri. Þær svamla fram og aftur með Drottningarbrautinni daginn út og inn og þar eru stöðugt bílar við vegbrún, fólk að skoða og taka myndir - eða bíða eftir því að sjá hvar þeim skýtur næst upp.

Sverrir Páll Erlendsson, sem tók meðfylgjandi mynd síðdegis í dag, segir ennfremur:

Siglingaklúbbssvæði Nökkva við Höpfnersbryggju er vinsæll skoðunarstaður og þar var nú undir kvöld fjölmenni mikið, heil rúta af miðaldra erlendum gestum af skipi, sem er hér í dag, auk fólks í um það bil 30 einkabílum.

Og það voru gestalæti í þessum skemmtilegu sjávardýrum. Þau stukku og gáfu kost á mikilli myndatöku. Og magaskellurinn í lendingunni hefði ekki dugað til silfurverðlauna í dýfingakeppni á Ólympíuleikunum.

En þetta er ævintýri líkast, daglegar hvalaskoðunarferðir við Pollinn á Akureyri. Kannski verður líka stokkið á Akureyrarvökunni um helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert