Fullyrðingar um sólarvörn bannaðar í auglýsingum

Á sólarströnd.
Á sólarströnd. mbl.is/GSH

Neytendastofa telur að fyrirtækið Celsus ehf. hafi brotið gegn ákvæðum laga með því að fullyrða, að sólarvörnin Proderm veiti sex klukkustunda vörn óháð svita, sand, sjó, leik og handklæðaþurrkun. Hefur fyrirtækinu verið bannað að nota slíka fullyrðingu í auglýsingum.

Segir Neytendastofa, að umræddar fullyrðingar séu villandi og til þess fallnar að veita falskt öryggi gegn skaðlegum geislum sólar í sex klukkustundir.

Það var fyrirtækið Beiersdorf ehf., sem kvartaði til Neytendastofu í byrjun ársins. Fyrirtækið benti einnig á, að í auglýsingum um sólarvörnina væri fullyrt, að hún væri skráð læknavara og eina læknisfræðilega sólarvörnin.

Fram kom hjá Celsus í meðferð málsins hjá Neytendastofu, að vörur Proderm væru fluttar inn frá Svíþjóð. Vörurnar hafi verið skráðar sem lækningatæki þegar þær komu fyrst á markað í Svíþjóð og því hafi hið sama verið gert hér á landi. Vörur frá Proderm séu hins vegar ekki lengur skráðar sem lækningatæki í Svíþjóð og því yrði hætt að birta fullyrðingar þess efnis í auglýsingum Celsus.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert