Eftirlitsmyndavélar settar upp í miðbæ Akureyrar

Ráðhústorgið á Akureyri.
Ráðhústorgið á Akureyri. mbl.is/Golli

Þrjár löggæslumyndavélar hafa verið settar upp í miðbæ Akureyrar og eru þær beintengdar lögreglustöðinni á Akureyri. Íslensk verðbréf hf. og Akureyrarbær tóku höndum saman um kaup og uppsetningu myndavélanna og er heildarkostnaður um 1,7 milljónir króna.

Að sögn Akureyrarbæjar hefur þegar fengist góð reynsla af notkun vélanna en tvær þeirra voru settar upp og tengdar fyrir liðna verslunarmannahelgi. Þriðju vélina er verið að taka í notkun þessa dagana.

Myndavélarnar eru sítengdar og þær sýna Ráðhústorg, Hafnarstræti og Geislagötu en að mati lögreglu eru mestar líkur séu á að eitthvað geti út af brugðið þar. Vélarnar eru með möguleika á upptöku og þær eru ekki vaktaðar nema lögregla telji að ástæða sé til og eitthvað sérstakt sé um að vera.

Um vélarnar gilda sömu reglur og aðrar sambærilegar eftirlitsmyndavélar. Vélarnar hafa verið tilkynntar til Persónuverndar og sett hafa verið upp skilti í miðbænum sem upplýsa fólk um að svæðið sé vaktað með eftirlitsmyndavélum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert