Margir nemar sækja um strætókort

Nemakort Strætó bs. eru vinsæl.
Nemakort Strætó bs. eru vinsæl. mbl.is

Mikil eftirspurn er eftir nemakortum Strætó bs í fréttatilkynningu segir að frá því að opnað var fyrir umsóknir hafa um sex þúsund nemar skilað inn umsókn. Um fjögur þúsund til viðbótar hafa hafið umsóknarferlið á Netinu.

Því hafa um 10.000 nemendur, um það bil þriðjungur allra námsmanna í framhalds- og háskólum á höfuðborgarsvæðinu, sótt um nemakortið eða eru að vinna að umsókn um nemakort. 

Í fréttatilkynningu frá Strætó bs segir: „Þetta er annað árið sem sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu bjóða nemendum framhalds- og háskóla frítt í strætó yfir veturinn. Að þessu sinni eru það Reykjavík, Hafnarfjörður, Kópavogur, Seltjarnarnes, Mosfellsbær og Álftanes sem taka þátt í verkefninu.

Með verkefninu auka sveitarfélögin nýtingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu sem dregur úr bílaumferð og útblæstri um leið og nemendum á framhalds- og háskólastigi er gefinn betri kostur á að minnka notkun einkabíla og lækka þar með verulega ferðakostnað sinn á meðan á námi stendur."

Allir sem eru skráðir í framhaldsskóla eða háskóla og eru með lögheimili í Reykjavík, Hafnarfirði, Kópavogi, Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ og Álftanesi geta sótt um nemakort Strætó. Kortin gilda frá afhendingu fram til 1. júní 2009.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert