Laun æðstu embættismanna hækkuð

mbl.is/Kristinn

Kjararáð ákvað í lok ágúst að hækka laun forseta Íslands, alþingismanna, ráðherra, hæstaréttardómara og héraðsdómara um 20.300 kr. Ákvörðunin er afturvirk og miðast við 1. maí sl. Alls nemur því greiðslan 81.200 kr. fyrir sl. fjóra mánuði.

Niðurstaða ráðsins var að fylgja þeirri meginstefnu sem fylgt hefur verið í kjarasamningum sem gerðir hafa verið á árinu. 

Í samræmi við almennar launahækkanir

„Það er eðli kjararáðs að fylgja á eftir öðrum hækkunum,“ segir Guðrún Zoëga, formaður kjararáðs. „Við bíðum eftir því að samningum sé að mestu lokið og tökum mið af því,“ bætir hún við. Hækkunin sé í samræmi við almennar launahækkanir opinberra starfsmanna.

Frá því í júlí 2007 hafa laun æðstu ráðamanna þjóðarinnar hækkað þrisvar sinnum. Þann 1. júlí í fyrra hækkuðu mánaðarlaun forseta Íslands, alþingismanna og ráðherra um 2,6%. Í janúar sl. hækkuðu launin um 2% og nú hafa launin verið hækkuð aftur.

Samkvæmt launatöflu kjararáðs, sem gildir fyrir þjóðkjörna fulltrúa og tók gildi 1. maí, eru laun alþingismanna nú 562.020 kr. á mánuði, laun ráðherra 992.512 kr., laun forsætisráðherra 1.098.208 kr. og laun forseta Íslands 1.827.143 kr.

Kjararáð er skipað fimm ráðsmönnum og fimm til vara. Þrír eru kosnir af Alþingi, Hæstiréttur skipar einn og fjármálaráðherra einn. Ráðið kýs sér sjálft formann og varaformann.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert