Vegurinn til Ólafsvíkur lokaðist í morgun

Unnið að hreinsun á veginum til Ólafsvíkur í morgun.
Unnið að hreinsun á veginum til Ólafsvíkur í morgun. mbl.is/Alfons


Vegurinn  innan við Klif á Snæfellsnesi lokaðist í morgun vegna þess að urð og grjót  fór á veginn vegna sjávargangs og þurfti að ryðja veginn svo hægt væri að hleypa umferð á veginn á ný til Ólafsvíkur. Vegurinn hefur lokast nokkrum sinnum á ári þegar stórstreymt er og hafa bifreiðar skemmst.

Smári Björnsson, bæjartæknifræðingur  Snæfellsbæjar, segir að grjótvarnargarðurinn sé löngu úr sér genginn og þurfi að bæta hann svo vegurinn sé varinn gegn ágangi sjávar.

Magnús Valur Jóhannesson svæðisstjóri norðvesturssvæðis Vegagerðarinnar, gat lítið sagt um þetta mál þegar haft var samband við hann, en sagði að það væri nauðsynlegt að fá fjármagn í grjótgarðinn eins fljótt og auðið er. Magnús segir að kostnaður við gerð varnargarðs hlaupi á miljónum.

Björn Jónsson rekstrarstjóri Vegagerðarinnar í Ólafsvík, tók í sama streng og Magnús og sagði að það væri brýn þörf að fá garðinn lagaðan. ,,En þetta er kostnaðarsamt og við höfum þrýst á Vegagerðina ásamt bæjarstjórn Snæfellsbæjar að fá pening í þetta verkefni og bíðum svara frá samgönguráðneytinu fyrir fjármagni“ segir Björn og bætir við að svona lagað gerist í stórstreymi og vestan roki að grjót hlaðist á veginn.

Vegurinn við Klif er á þjóðbraut og því ber  Vegagerðinni að þjónusta hann, og aðspurður hversvegna  Vegagerðin hafi ekki hreinsað veginn í morgun sagði Björn: „Við erum með þjónustusamning við Snæfellsbæ um að þjónusta veginn frá Bakka og að tengingunni að innra Klifi en  höfum samt sjálfir reynt þjónusta þetta svæði“ segir Björn að lokum, í samtali við fréttaritara Morgunblaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert