Tala fyrir framboði Íslands

Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York
Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York

Geir H. Haarde forsætisráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra munu tala fyrir framboði Íslands til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í New York þessa vikuna. Þar fer nú fram svonefnd ráðherravika allsherjarþings SÞ, dagana 22. - 27. september, en allsherjarþingið sjálft verður sett á morgun í 63. skiptið. 

Þar munu ráðherrarnir hitta þjóðarleiðtoga og aðra ráðamenn sem sækja þingið. Á föstudaginn mun forsætisráðherra flytja aðalræðu fyrir Íslands hönd og funda eftir það með Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra SÞ.  Hann mun einnig leiða fund smærri ríkja um nýjar umhverfisógnir, miðvikudaginn 24. september og verður þann sama dag heiðursgestur við lokunarathöfn verðbréfamarkaðar NASDAQ.
Þá mun forsætisráðherra ávarpa fund um framkvæmd Þúsaldarmarkmiða SÞ fimmtudaginn 25. september og eiga fundi með fulltrúum úr viðskiptalífi og háskólum.

Utanríkisráðherra verður í dag einn aðalræðumanna á fundi UNIFEM um málefni Afríku. Hún mun sækja fund utanríkisráðherra Norðurlanda, samráðsfund utanríkisráðherra Atlandshafsbandalagsins og samstarfsríkja þess miðvikudaginn 25. september og leiða sérstakan fund kvenutanríkisráðherra SÞ föstudaginn 26. september.

Fram kemur á vef forsætisráðuneytisins að næstu vikur muni starfsemi Íslands á vettvangi SÞ taka mið af því að tæpur mánuður er nú þar til gengið verður til kosninga í öryggisráðið. Framboð Íslands nýtur stuðnings alla Norðurlanda og munu ráðherrar Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar leggja framboðinu lið á allsherjarþinginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert