Sátt náðist í Pix-myndamálinu

Neikvæð samningagerð tíðkast ekki lengur hjá Pix-myndum.
Neikvæð samningagerð tíðkast ekki lengur hjá Pix-myndum. mbl.is/Ásdís

„Það náðist sátt í þessu máli í apríl síðast liðnum," sagði Guðmundur Svansson eigandi Pix-mynda er mbl.is spurði hann út í deilu hans við talsmann neytenda og forráðamanna skólabarna vegna svo kallaðrar neikvæðrar samningsgerðar.

„Ég er búinn að breyta kerfinu hjá mér núna," sagði Guðmundur sem sagðist hafa notast við sænskt kerfi í fyrstu þar sem fólk var beðið um að merkja í reit á eyðublaði ef það vildi láta taka mynd af barni sínu í skólanum og ef það var gert fékk fólk myndirnar sendar og fékk 10 daga umhugsunarfrest. 

„Ef fólk vildi síðan ekki myndirnar átti það að setja þær í næsta póstkassa og senda til baka sér að kostnaðarlausu en ef það var ekki gert þá var sjálfkrafa sendur greiðsluseðill til þeirra," sagði Guðmundur.

 Guðmundur sem býr í Svíþjóð og stundar skólamyndatökur í báðum löndunum segir að kerfið virki mjög vel þar í landi en að nú sé hann búinn að breyta fyrirkomulaginu á myndasölunni á Íslandi og að nú versli foreldrar myndirnar með greiðslukorti í gegnum netið.

„Það hefur verið þannig núna í tæpan mánuð, það er ekki komin reynsla á nýja kerfið en það hefur verið mikil umferð á netsíðunni," sagði Guðmundur.

Hann bætti því við að hann hefði látið Reykjavíkurborg í té myndir af öllum börnum í þeim skólum á höfuðborgarsvæðinu sem hann hefur myndað í til að nota í nýju tölvukerfi sem tekið hefur verið upp í skólamötuneytunum og segir hann að það samstarf hafi gefist vel.

Talsmaður neytenda fjallar um málið

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert