Áhættumeðvitund varð til þess að Auður stendur vel

Halla Tómasdóttir, stjórnarformaður Auður Capital
Halla Tómasdóttir, stjórnarformaður Auður Capital mbl.is/Ómar

Áhættumeðvitund gerði það að verkum að verðbréfafyrirtækið Auður Capital stendur vel nú þegar fjármálakreppa ríður yfir heiminn. Þetta segir Halla Tómasdóttir, stjórnarformaður Auðar, og bendir á að fyrirtækið hafi ekki verið skuldsett heldur einungis verið með eigið fé. „Við þurftum þar af leiðandi ekki að lengja neinar lánalínur og lausafjárskortur kemur ekki niður á okkur eins og svo mörgum fjármálafyrirtækjum. Við settum öryggið ofar ávöxtuninni en náðum samt að ávaxta vel og leituðum sérstaklega eftir traustum og gegnsæjum fjárfestingarkostum,“ útskýrir Halla en Auður stýrir hátt í átta milljörðum króna.

Samstarf frekar en samkeppni

Halla segir markaðinn hafa einkennst af mikilli áhættusækni jafnt hér á landi sem annars staðar. „Karllægu gildin réðu för með áherslu á skammtímagróða frekar en langtíma, samkeppni frekar en samstarf og áhættusækni frekar en áhættumeðvitund,“ segir Halla og leggur mikla áherslu á að bæði konur og karlar starfi innan fjármálageirans, jafnt í uppsveiflu sem í niðursveiflu.

Fjármálakreppan gæti þó reynst Auði erfið eins og öðrum fyrirtækjum. „Innflæðið hjá okkur hefur verið mikið síðustu daga og vikur en það er mjög erfitt að taka fjárfestingarákvarðanir í núverandi umhverfi. Kerfið er lamað,“ segir Halla Tómasdóttir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert