Einhver erfiðasta vika í seinni tíð

Geir H. Haarde ávarpar flokksráðsfund Sjálfstæðisflokksins í dag.
Geir H. Haarde ávarpar flokksráðsfund Sjálfstæðisflokksins í dag. mbl.is/Kristinn

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði þegar hann ávarpaði flokksráðsfund Sjálfstæðisflokksins í dag, að sú vika, sem nú er að líða, hafi verið einhver sú erfiðasta í sögu þjóðarinnar í seinni tíð. Ljóst sé, að áfram verði erfitt hjá landi og þjóð næstu daga og vikur.

Geir sagði að það hefði verið ómetanlegt að fá stuðning víða að úr þjóðfélaginu síðustu daga í formi tölvupósta, skeyta, kveðja og skilaboða. „Það er ótrúlegur styrkur að finna, að þótt fólk hafi orðið fyrir tjóni metur það það sem verið er að gera á vegum okkar í forustu Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórnarinnar," sagði Geir.

Meðal annars hefði verið komið með blómakörfu heim til hans í gær alla leið frá Akureyri. „Hún var ekki til mín, heldur konunnar minnar. Á henni stóð: Kæra Inga Jóna. Takk fyrir að lána okkur Geir dag og nótt," sagði Geir.

Hann sagði, að Íslendingar væru auðvitað í sárum vegna þeirra áfalla, sem hafi dunið yfir og hrun bankanna þriggja skilji eftir sig gríðarlegt skarð í íslensku þjóðfélagi. „Því miður standa hundruð manna frammi fyrir því að missa atvinnu sína og tugþúsundir hafa efalaust beðið verulegt fjárhagslegt tjón. Í okkar litla samfélagi fer enginn varhluta af slíkum hörmungum. Það segir sína sögu um fólkið sem býr í landinu að þjóðin er óbuguð og á örlagastundum sem þessari sýnir þjóðin jafnan sínar bestu hliðar," sagði Geir.

Hann sagði að íslenska þjóðin hafi oft þurft að búa við mótlæti og miklar hörmungar og alltaf haft sigur. „Við munum sýna þeim, sem nú hafa dæmt okkur úr leik á alþjóðavettvangi úr hverju þjóðin er gerð," sagði Geir.

Hann sagði merkilegt að sjá, nú þegar heimsbyggðin stæði á barmi kreppu, hvernig gamlir múrar einangrunar og tortryggni rísa nú milli ríkja þrátt fyrir alla samninga um frjáls viðskipt og frjálst flæði fjármagns. „Í þessari stórkarlalegu hagsmunabaráttu hugsar um sig og sína hagsmuni og kreppan verður dýpri og dýpri," sagði Geir.

Fjölmenni var á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag.
Fjölmenni var á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag. mbl.is/GSH
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert