Ketillinn tæmist á 70 tímum

Hlaupið í Skaftá náði hámarki í Eldvatni við Ása í …
Hlaupið í Skaftá náði hámarki í Eldvatni við Ása í kvöld. Jónas Erlendsson

„Ég hef aldrei séð svona mikið í henni,“ sagði Snorri Zóphóníasson sérfræðingur hjá Vatnamælingum. Hann var að mæla Skaftárhlaupið í Eldvatni hjá Ásum í kvöld og taka sýni. Þá var áin þar um 100 metra breið en er alla jafna um 60 metra breið. Snorri taldi líklegt að hlaupið hafi þá verið nálægt hámarki við Ása.

Samkvæmt rennslismæli Vatnamælinga var rennslið við Ása um 730 rúmmetrar á sekúndu kl. 19.30 í kvöld og um 130 rúmmetrar á sekúndu við Kirkjubæjarklaustur. Þegar það vatn var í ánni upp við Sveinstind var rennslið þar um 1.500 rúmmetrar á sekúndu. Snorri sagði að mismunurinn flæddi út um allt og ofan í hraunin. Við það hækkar grunnvatnið um marga metra á stóru svæði. Það kemur síðan fram í Landbroti og Meðallandi um tveimur vikum síðar og eykur lindarennsli í allt að mánuð. Framburður árinnar þéttir hraunin smám saman og veldur minnkandi rennsli í lindum í Meðallandi í venjulegu árferði.

Vatnið kemur úr öðrum Skaftárkatlinum í Vatnajökli. Í honum eru taldir vera um 300 gígalítrar þegar hann er fullur, eða 0,3 rúmkílómetrar af vatni. Við hlaup af þeirri stærð og nú varð má reikna með að ketillinn tæmist á um 70 klukkustundum. Snorri sagði að þegar hlaup kæmu jafn snöggt og nú fari þau bratt niður.

Gríðarlegt efnismagn berst fram í svona hlaupi. Þegar hlaupvatnið sígur ofan í hraunin verður framburðurinn eftir ofanjarðar og fýkur um. Snorri sagði að talið sé að Skaftárhlaup frá árinu 1955 hafi samtals borið fram sem samsvarar eins metra þykku lagi af aur á upp undir 100 ferkílómetrum lands.

Starfsmenn Vatnamælinga verða áfram við mælingar á Skaftá á morgun. 

Rennslið í Eldvatni við Ása í kvöld.
Rennslið í Eldvatni við Ása í kvöld. Vatnamælingar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert