Allt verður rannsakað

Rannsakað verður hvort eitthvert refisvert athæfi hafi átt sér stað í tengslum við hrun bankanna, að því er fram kom í máli Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra á Alþingi í dag. Ríkissaksóknari fer fyrir rannsókninni og fær liðsinni frá skattrannsóknastjóra, fjármálaeftirliti og ríkisendurskoðanda.

Björn lagði áherslu á að ekki væri rétt að hrapa að neinu og gefa sér í anda nornaveiða að lög hafi verið brotin. 

Björn  boðaði að stofnað verði rannsóknarembætti sem taki við rannsókn á kærum um meinta refsiverða háttsemi, sem stafað hafi af starfsemi íslensku bankanna á undanförnum árum.

Þá mun ríkissaksóknari láta vinna skýrslu, um stöðu og starfsemi íslenskra peninga- og fjármálastofnana á þessum tímamótum í rekstri þeirra og eignarhaldi auk aðdraganda hinna miklu umskipta, sem orðið hafa í rekstri þeirra. 

Með gerð skýrslunnar yrði aflað staðreynda um starfsemi bankanna Glitnis, Landsbanka Íslands  og Kaupþings, útibúa þeirra, og fyrirtækja í þeirra eigu, tilfærslu eigna, einkum á síðustu mánuðum starfseminnar. Markmiðið yrði að kanna, hvort sú háttsemi hefði átt sér stað, sem gæfi tilefni til lögreglurannsóknar á grundvelli laga um meðferð opinberra mála.

Þess er vænst, að gerð skýrslunnar verði hraðað og að því stefnt, að hún liggi fyrir eigi síðar en í árslok 2008.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert