Ekki persónugera viðfangsefnin

Geir H. Haarde og Björgvin G. Sigurðsson á blaðamannafundi í …
Geir H. Haarde og Björgvin G. Sigurðsson á blaðamannafundi í Iðnó í dag. mbl.is/Brynjar Gauti

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á blaðamannafundi í Iðnó síðdegis, að hann teldi ekki að persónugera ætti þau vandamál, sem við er að fást nú, í bankastjórum Seðlabankans.

„Við erum hér í gríðarlega miklum látum og við eigum að snúa bökum saman um að leysa þann vanda en ekki að finna blóraböggla í Seðlabankanum," sagði Geir þegar hann var spurður hvort hann væri sammála Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, um að stjórn Seðlabankans eigi að stíga til hliðar til að gefa forsætisráðherra tækifæri til að endurskipuleggja stjórnkerfið.

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, sagði aðspurður á fundinum, að stjórnvöld hefðu að svo komnu máli ekki haft samband við íslenska auðmenn, sem tengdust útrásinni, að koma heim með eignir sinar. Hins vegar hefðu komið fram áskoranir til þeirra frá stjórnmálamönnum, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu.

„Ég held að það væri mjög verðugt verkefni að setjast niður með þessum mönnum og ræða við þá því þeim ber siðferðisleg skylda að koma að uppbyggingu íslenska samfélagsins. Ef við sitjum t.d. uppi með eitthvað af skuldum vegna innistæðureikninga en fáum ekki allt til baka í uppgjöri þá eru þær tilkomnar vegna þessarar starfsemi," sagði Björgvin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert