Mistök að færa Kaupþing ekki úr landi

Bakkavararbræður - Ágúst og Lýður Guðmundssynir.
Bakkavararbræður - Ágúst og Lýður Guðmundssynir. mbl.is/Brynjar Gauti

„Það voru mistök að færa ekki Kaupþing úr landi þegar umsókn bankans um að skrá hlutafé í evrum var hafnað,“ sagði Lýður Guðmundsson, kenndur við Bakkavör, í þætti Björns Inga Hrafnssonar, Markaðnum, á Stöð 2 í dag. Lýður sagði að hugmynd um að færa Kaupþing  úr landi hafi verið á umræðustigi þegar ríkið tók bankann yfir.

Lýður sagði að það myndi skýrast í næstu viku hvort dómstólaleið væri fær til að sækja á bresk stjórnvöld um bætur vegna aðgerðanna gegn Kaupþingi í Bretlandi sem leiddi til falls móðurfélags bankans á Íslandi.

Lýður sagði ennfremur að það liti þannig út að Kaupþing í Bretlandi hefði verið látið gjalda fyrir syndir Landsbankans vegna Iccesave-reikninganna. Þegar breska fjármálaeftirlitið hafi ruðst inn í bankann ytra og tekið yfir stjórnina, hafi Kaupþing í Bretlandi síður en svo verið gjaldþrota. Þvert á hafi verið farið að öllum óskum fjármálaeftirlitsins í Bretlandi um laust fé og annað sem krafist var.

lýður segir stöðu flestra fyrirtækja þeirra Bakkavararbræðra góða, Símans, VÍS og Lýsingar. Bakkavör hefði hins vegar orðið fyrir gríðarlegu höggi þegar Kaupþing féll. Allt lausafé Bakkavarar, um 30 milljarðar króna hafi verið flutt til landsins í lok september til þess að styrkja Kaupþing. En allt hafi komið fyrir ekki.

Þá heyi Exista lífróður. Félagið hafi tapað  130 milljörðum á einni nóttu og starfsmenn félagsins, 22 þúsund manns, þar af 2 þúsund á Íslandi, bíði í algerri óvissu. Lýður segir Exista eiga fyrir launum starfsmanna en óvissan sé mjög mikil.

Markaðurinn

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert