Var að mála stolið mótorhjól

Lögreglumenn á Selfossi komust um helgina á snoðir um að verið væri að mála bifhjól í bílskúr á Selfossi.  Grunsemdir vöknuðu um að hjólið væri stolið.  Í ljós kom að hjólinu hafði verið stolið í Reykjavík og þjófurinn fengið saklaust ungmenni á Selfossi til að geyma hjólið.  

Sá grunaði var handtekinn og yfirheyrður ásamt manni sem handtekinn var í Reykjavík og er talinn vera vitorðsmaður.

Lögreglan fékk einnig tilkynningu um innbrot í íbúð að Reykjabraut á Laugarvatni.  Þaðan var stolið skartgripum og áfengi. Sá sem þarna var að verki hafði spennt upp hurð til að komast inn í íbúðina þar sem hann rótaði heilmkið til.  Talið er að innbrotið hafi átt sér stað á tímabilinu frá 18. til 21. október.  Lögreglan segir að upplýsingar hafi borist um að á þessu tímabili hafi sést til Land Rover Discovery við húsið en þessi sama bifreið hafi sést í skurði við Eyvindatungu neðan við Laugarvatn.  Ef einhver kannast við að hafa veitt aðstoð við að ná bifreiðinni upp úr skurðinum er hann beðinn um að hafa samband við lögreglu í síma 480 1010.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert