Hrina hópuppsagna hafin

Hópuppsagnir hrannast nú inn og verður byggingariðnaðurinn þar ofarlega á …
Hópuppsagnir hrannast nú inn og verður byggingariðnaðurinn þar ofarlega á blaði. Steinunn Ásmundsdóttir

„Atvinnuleysi á Íslandi er nú 2,3% og hefur aukist hratt á síðustu vikum. Í byrjun þessa árs voru um 1.500 manns skráðir atvinnulausir en um 2.500 í lok september,“ þetta kom fram í máli Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra á ársfundi Vinnumálastofnunar í dag. Stofnunin spáir 7% atvinnuleysi í lok janúar næsta árs.

Atvinnuleysi er nú 2,3% og hefur aukist hratt á síðustu vikum. Við lokun hjá Vinnumálastofnun í gær voru 4.140 skráðir án atvinnu og hafa 50-70 skráð sig atvinnulausa á degi hverjum hjá skrifstofu Vinnumálastofnunar á höfuðborgarsvæðinu. Á öðrum skrifstofum stofnunarinnar er samanlagður fjöldi nýskráninga á bilinu 30 til 40 á dag.

Hrina hópuppsagna er hafin og hafa uppsagnir rúmlega 2.000 einstaklinga borist sem hætta munu störfum eftir einn til þrjá mánuði. Ráðherra kynnti á fundinum nýtt lagafrumvarp sem hefur það að markmiði að ýta undir að fyrirtæki semji frekar við starfsmenn um lækkað starfshlutfall fremur en að grípa til hópuppsagna.

Hér má finna nánari upplýsingar um innihald frumvarpsins 

Rafræn umsókn um atvinnuleysisbætur

Í dag verður opnuð ný vefgátt fyrir rafræna umsókn um atvinnuleysisbætur og er það liður í aukinni þjónustu Vinnumálastofnunar á tímum aukinna uppsagna.

Vefgáttin verður sett upp til reynslu um helgina og er vonast til að hún verði komin í fulla notkun í næstu viku. „Vefgáttin er enn einn liðurinn í að auka skilvirkni í afgreiðslu stofnunarinnar“ sagði Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar á ársþingi stofnunarinnar í dag. Umsækjendur geta því sótt um á vef Vinnumálastofnunar en þurfa samt sem áður að afla nauðsynlegra vottorða, skila inn til stofnunarinnar innan 14 daga og skrifa undir umsóknina.

Tengil inn á vefsíðu Vinnumálastofnunar er að finna hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert