Stjórnvöld koma til móts við námsmenn erlendis

Gunnar Birgisson, formaður stjórnar LÍN, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, …
Gunnar Birgisson, formaður stjórnar LÍN, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, kynna aðgerðir vegna námsmanna erlendis.

Menntamálaráðherra hefur að höfðu samráði við Samband íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE) og Lánasjóð íslenskra námsmanna (LÍN) ákveðið að fallast á tillögur stjórnar LÍN sem samþykktar voru á fundi í gær.

Áætlað er að kostnaður vegna þess verðo allt að 300 milljónir á næsta ári og er talið að þau útgjöld rúmist innan fjárheimilda sjóðsins.

Tillögurnar fela í sér eftirfarandi breytingar á reglum sjóðsins fyrir yfirstandandi skólaár, til hagsbóta fyrir íslenska nemendur erlendis og fjölskyldur þeirra.

  • Aukalán vegna röskunar á högum lánþega erlendis
    Hafi orðið ófyrirsjáanleg röskun á stöðu og högum lánþega við nám erlendis verði heimilt að veita honum aukalán sem samsvarar framfærslu allt að tveggja mánaða. Eftir sem áður eigi lánþegar við nám á Íslandi rétt á sambærilegu aukaláni sem samsvarar framfærslu eins mánaðar. Þannig verði tekið sérstakt tillit til þess kostnaðar sem fylgir því að búa fjarri fjölskyldu og heimahögum. Þessi ráðstöfun er gerð með breytingu á grein 4.9. í úthlutunarreglum LÍN. Námsmenn þurfa að sækja sérstaklega um aukalán, en þau eru ætluð þeim sem eru í sárri neyð og verður hvert tilvik metið af stjórn sjóðsins.
  • Hækkun á vaxtastyrk vegna aukins fjármagnskostnaðar
    Vaxtastyrkir eru ætlaðir til að mæta vaxtakostnaði námsmanna vegna yfirdráttarlána. Hér er um styrk að ræða en ekki lán, sem greiddur er út með námslánum. Vaxtastyrkur við útborgun lána verði hækkaður úr 250 kr. í 400 kr. fyrir hverja ECTS-einingu sem lokið er. Námsmaður sem lýkur fullu námi á skólaárinu fái þannig styrk að fjárhæð 24 þús.kr. í stað 15 þús.kr. áður. Þessi ráðstöfun er gerð með breytingu á grein 4.11. í úthlutunarreglum LÍN.
  • Lækkun tekjuskerðingar úr 10% í 5%
    Við útreikning og afgreiðslu námslána þeirra sem hefja lánshæft nám á vormisseri 2009 komi 5% í stað 10% tekna til frádráttar. Tilgangur breytingarinnar er að auðvelda mönnum, t.d. vegna atvinnumissis, að hefja lánshæft nám á næsta ári þrátt fyrir háar tekjur árið 2008. Verður greinum 4.2., 4.3., 4.5. og 4.6. í úthlutunarreglum LÍN breytt til að heimila þetta.
  • Ný gengisviðmiðun á útreikningi lána til skiptinema
    Í stað þess að útreikningur vegna námslána skiptinema skólaárið 2008-2009 miðist við gengið 1. júní 2008 verður útreikningurinn miðaður við gengi 26. september 2008. Að öðru óbreyttu þýðir þetta um 23% hækkun framfærslulána til þessa hóps miðað við fyrri áætlun. Alls er áætlað að 400-500 lánþegar stundi nám sem skiptinemar erlendis. Gerð verður breyting á grein 3.1.3. í úthlutunarreglum LÍN af þessu tilefni.
  • Aukinn sveigjanleiki í endurgreiðslum námslána
    Greiðendum í vanskilum og þeim sem sjá fram á vanskil vegna tekjutengdra afborgana af námslánum sínum, með gjalddaga 1. september 2008 eða 1. nóvember 2008, verður gefinn kostur á gera greiðslusamkomulag til þriggja mánaða í stað tveggja mánaða áður gegn lágmarksinnborgun sem samsvarar 1/3 skuldar í stað helmings áður.
  • Tekið tillit til tekjutaps þeirra sem greiða af námslánum
    Greiðendur námslána sem verða fyrir 20-30% tekjufalli milli áranna 2008 og 2009 eigi kost á lækkun tekjutengdrar afborgunar haustið 2009, og þeir sem verða fyrir tekjufalli umfram 30% geti fengið tekjutengdu afborgun ársins fellda niður að fullu. Almennt er greiðendum námslána gert að greiða 3,75%-4,75% af heildartekjum undangengis árs í afborganir af námslánum sínum. Með breytingunni er leitast við að koma til móts við þá sem verða fyrir verulegum tekjumissi milli ára. Verður þetta gert með breytingu á grein 7.4.2. í úthlutunarreglum LÍN. 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert