Samfylking afneitar Davíð

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri.
Davíð Oddsson, seðlabankastjóri.

Ráðherrar Samfylkingarinnar lögðu fram bókun á ríkisstjórnarfundi þar sem þeir segja Davíð Oddsson, formann stjórnar Seðlabankans, alfarið starfa í umboði Sjálfstæðisflokksins. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Sigurður Líndal, lagaprófessor, segir við blaðið að bókun sem þessi sé afar sérstök og beri vitni um alvarlegan ágreining. Þegar slíkur ágreiningur sé uppi sé undarlegt að fólk sætti sig við slíka stöðu án þess að krefjast breytinga.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sagði í viðtali við Morgunblaðið i gær, að það hafi skaðað orðspor Íslendinga erlendis hvernig haldið hafi verið á umræðunni af hálfu Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabankans.

„Látum nú vera hvernig kaupin gerast á eyrinni hér innanlands en þegar þetta er farið að hafa áhrif utan landsteinanna í þeirri aðstöðu sem við erum í núna þá er ábyrgðarhluti að láta málin halda áfram í þessum farvegi,“ sagði Ingibjörg Sólrún.

Hún sagði að ýmsar aðgerðir og yfirlýsingar stjórnar Seðlabankans á síðustu dögum og vikum orki mjög tvímælis. „Í þeirri viðkvæmu stöðu sem þjóðin er í núna getur það ekki gengið til lengdar.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert