Aldrei fleiri útskrifaðir úr háskóla

Útskrift Háskóla Íslands
Útskrift Háskóla Íslands mbl.is/Kristinn

Á háskólastigi útskrifuðust 3.521 nemendur með 3.553 próf skólaárið 2006-2007. Aldrei hafa fleiri útskrifast úr námi á háskólastigi á Íslandi á einu skólaári síðan gagnasöfnun Hagstofu Íslands hófst árið 1995. Brautskráðum nemendum fjölgaði um 159, eða 4,7% frá árinu áður. Konur voru tveir þriðju (67,6%) þeirra sem útskrifuðust með próf á háskólastigi og karlar þriðjungur (32,4%) útskrifaðra.

Ekki hafa fleiri lokið meistaragráðu á Íslandi á einu skólaári til þessa. Þeir voru 612 og fjölgaði um 201 frá fyrra ári, sem er fjölgun um 48,9%. Rúmlega tvöfalt fleiri luku meistaragráðu þetta ár en skólaárið 2004-2005, þegar 292 luku þessu námi, að því er fram kemur á vef Hagstofu Íslands.

Alls luku 10 doktorsprófi á skólaárinu, 4 karlar og 6 konur. Það eru 5 færri en árið á undan.

Flestar brautskráningar á háskólastigi eru vegna nemenda sem ljúka fyrstu háskólagráðu. Þær voru 2.505 talsins skólaárið 2006-2007, og hafa ekki áður útskrifast svo margir með fyrstu háskólagráðu á Íslandi. Brautskráningum með fyrstu háskólagráðu fjölgaði um 64 frá fyrra ári (2,6%), sem er talsvert minni fjölgun en undanfarin ár. Nú fjölgar útskrifuðum háskólanemendum aðallega vegna fjölgunar nemenda sem ljúka meistaragráðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert