Uggandi um afgreiðslu umsóknar hjá IMF

Fulltrúar IMF á Íslandi fyrir skömmu.
Fulltrúar IMF á Íslandi fyrir skömmu. mbl.is/Kristinn

Sum ríki Evrópusambandsins (ESB) hafa látið að því liggja að afstaða þeirra í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) til láns til Íslands geti ráðist af því hvort niðurstaða fáist í deilum Íslendinga við Hollendinga og Breta vegna Icesave-reikninganna.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var stjórnarfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem halda átti í fyrradag, frestað til föstudags, vegna þessarar afstöðu Breta og Hollendinga. Sömu heimildir herma að ríkisstjórn Íslands sé nú uggandi um hvers konar afgreiðslu lánsumsókn Íslands hjá IMF fær.

Alan Seattler, fulltrúi framkvæmdastjórnar ESB, og Natasha Butler, fulltrúi ráðherraráðs ESB, gáfu þetta sterklega og ítrekað í skyn á fundi með íslenskri þingmannanefnd í Brussel fyrr í vikunni.

Árni Þór Sigurðsson, alþingismaður og fulltrúi í íslensku nefndinni, sagði að Seattler hefði einnig sagt að hugsanlegt lán úr neyðarsjóði ESB til Íslands yrði væntanlega háð lausn á deilum Íslendinga við einstök ESB-ríki. „Ég brást við þessu og sagði að mér fyndist þetta nánast vera eins og fjárkúgun. Með þessu væri verið að segja að Bretar og Hollendingar, sem eru innanbúðar í Evrópusambandinu, gætu sett okkur alla skilmála þar – hvað þyrfti að gera gagnvart þeim til þess að svona lánveiting gengi í gegn,“ sagði Árni Þór.

Embættismennirnir reyndu þá að draga í land og sögðu að þetta væri ekki þannig hugsað.

Árni Þór Sigurðsson sagði að engu að síður hefði allur málflutningur þeirra verið á einn veg og margítrekaður með þunga á fundinum með íslensku þingmönnunum í Brussel.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert