Krefjast almenns félagsfundar í VR

Frá mótmælum VR-félaga í síðustu viku
Frá mótmælum VR-félaga í síðustu viku mbl.is/RAX

„Þetta gekk ljómandi vel um helgina. Við erum komnir með miklu meira en þær 200 undirskriftir sem þarf til að krefjast almenns félagsfundar. Við vonumst til að geta afhent listana í hádeginu,“ segir Kristófer Jónsson, félagsmaður í VR og einn skipuleggjenda mótmælafundar við höfuðstöðvar VR í hádeginu. Mótmæli félagsmanna í VR halda áfram í dag en þeir vilja stjórn VR burt vegna niðurfellingar ábyrgða hjá starfsmönnum Kaupþings.

Félagsmenn hafa mótmælt síðustu daga við höfuðstöðvar VR. Á fyrsta mótmælafundi mættu örfáir en stöðugt hefur bæst í hópinn. „Það stoppar varla síminn og fjölmargir hafa boðað komu sína. Þá fundum við mikinn stuðniong við okkar málstað við söfnun undirskriftanna um helgina. Reiðin kraumar í fólki vegna þessa gjörnings,“ segir Kristófer Jónsson.

Samkvæmty lögum VR er stjórninni skylt að boða til fundar, þegar eigi færri en 200 félagsmenn krefjast þess skriflega og skal fundurinn haldinn innan 7 daga frá því að stjórninni barst krafan í hendur. Óvíst er hvort löglega boðaður félagsfundur getur sett stjórnina af að sögn Kristófers. Það er í skoðun.

Mótmælafundurinn er boðaður klukkan 12 í dag við höfuðstöðvar VR í Húsi verslunarinnar í Kringlunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert