Fallið verði frá kröfu um upplýsingagjöf

Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson. mbl.is/Ómar

Lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar fer fram á það við Ágúst Ólaf Ágústsson, formann viðskiptanefndar Alþingis, að hann falli frá þeirri fyrirætlun að krefja stjórnendur fjármálastofnana um upplýsingar sem varði persónuleg fjárhagsmálefni Jóns Ásgeirs. Veiting slíkra upplýsinga sé brot á lögum.

Fram kemur í bréfi sem lögmaður Jóns Ásgeirs sendi Ágústi Ólafi að veiting slíkra upplýsinga myndi fela í sér brot á 1. mgr. 58 gr. laga um fjármálafyrirtæki.

Þar komi fram að að stjórnarmenn fjármálafyrirtækis, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taki að sér verk í þágu fyrirtækisins séu bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- og einkamálefni viðskiptamanna þess, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum.

Lögmaður Jón Ásgeirs segir ef af verði umræddri upplýsingagjöf sé um að ræða athöfn sem feli í sér grófa innrás í einkamálefni Jóns Ásgeirs, sem hann geti brugðist við á þann eina hátt að leggja fram kæru hendur Ágústi Ólafi og öðrum hlutaðeigandi stofnunum.

„Ámælisvert er að þér sem formaður þingnefndar hafi nú óskað eftir upplýsingum um persónuleg fjárhagsmálefni Jóns Ásgeirs, sem trúnaður á að ríkja um lögum samkvæmt,“ segir í bréfinu.

Þá óskar lögmaður Jóns Ásgeirs að sér verði afhent fundargerð viðskiptanefndar Alþingis frá því í gærmorgun þegar umrædd ákvörðun hafi verið tekin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert